Heitu vatni verði breytt í hlutafé

Stjórn Hitaveitu Egilsstaða og Fella hefur samþykkt að greitt verði fyrir heitt vatn sem Ylströndin ehf. kaupir fyrsta árið með hlutabréfum í fyrirtækinu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu gegn því að HEF eða sveitarfélagið sjálft fjárfestu beint í fyrirtækinu.


Beiðni um hlutafé frá sveitarfélaginu var tekin fyrir í bæjarstjórn í júní þar sem ákvörðun um framlag þess var vísað til stjórnar HEF með þeim orðum að bæjarstjórnin „legðist ekki gegn“ framlagi og því skilyrði að verkefnið yrði fullfjármagnað.

Guðmundur Sveinsson Kröyer sat hjá en Anna Alexandersdóttir samþykkti tillöguna. Þau sitja fyrir Sjálfstæðisflokkinn í bæjarstjórn og lögðu fram bókun þar þeirri skoðun er líst að verkefnið sé spennandi en sveitarfélagið eigi að skapa vettvang fyrir nýja atvinnustarfsemi frekar en leggja þeim beint til fjármuni.

Þar segir enn fremur að vegna óvissu í rekstri, svo sem um þróun verðlags og lausra kjarasamninga kennara, sé mikilvægt að sveitarfélagið sýni aðhald í rekstri og taki „ekki beinan þátt í áhættufjárfestingum.“

Stefán Bogi Sveinsson, oddviti framsóknarfólks, lagði á fundinum fram bókun þar sem líst er þeirri skoðun að fulltrúar B-lista telji rétt að halda áfram viðræðum við forsvarsmenn Ylstrandarinnar með það í huga að fjárfesta í verkefninu í gegnum Atvinnumálasjóð sveitarfélagsins. Það sé réttlætanlegt þar sem sveitarfélagið muni njóta beinna tekna af ströndinni komist hún á laggirnar.

Fulltrúar meirihlutans í stjórn HEF fóru í sitt hvora áttina þegar tillaga Gunnar Jónssonar, formanns hennar, um kaup á hlutafé upp á allt að 30 milljónir króna, var tekin fyrir í júlí. Svo fór að tillagan var felld með atkvæðum tveggja fulltrúa Sjálfstæðisflokks og fulltrúa Framsóknarflokks.

Á sama fundi lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um að vatnskaupum Ylstrandarinnar fyrstu fimm árin yrði breytt í hlutafé. Hún féll á jöfnum atkvæðum, Gunnar og fulltrúi framsóknar greiddu atkvæði gegn henni og Skúli Björnsson, varaformaður frá Héraðslista, sat hjá.

Við það tækifæri bókaði Gunnar að hann væri á móti tillögunni þar sem hún bindi næstu stjórn til að hafna tekjum upp á allt að 50 milljónir króna.

Á fundi stjórnar HEF í ágúst lá fyrir ný beiðni frá Ylströndinni um að auka kaup á heitu vatni úr allt að 25 sekúndulítrum frá maí fram í september í 30 sekúndulítra

Við sama tækifæri lagði varaformaðurinn fram tillögu um að Ylströndinni yrði heimilt að greiða fyrir heitavatnsnotkun til 30. júní 2019 með hlutabréfum í sjálfri sér. Með því væri stjórnin að lýsa yfir „sérstökum stuðningi og áhuga á þessu framfaraverkefni sem í framtíð mun auðga afþreyingu á svæðinu en um leið styðja við rekstur HEF ehf.“

Fjórir samþykktu tillöguna en Gunnar sat hjá og bókaði að hann teldi verkefnið mikilvægt en æskilegra hefði verið að HEF kæmi beint að verkefninu með hlutafé.

Til stendur að Ylströndin verði við Urriðavatn en hún er hugmynd þriggja athafnamanna á Fljótsdalshéraði þeirra Hafliða Hafliðasonar, Hilmar Gunnlaugssonar og Ívars Ingimarssonar. Áætlaður kostnaður við uppbyggingu er talinn nema 350-400 milljónum króna. Gert er ráð fyrir að hún opni árið 2018 og hana sæki 40 þúsund gestir á ári.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar