Háskólinn er ekki lengur staðsettur á einum stað

Rektor Háskólans á Akureyri segir þær breytingar sem eru að verða á umhverfi háskóla vera hluta af hvatanum að baki stofnum Háskólaseturs Austfjarða. HA er meðal þeirra aðila sem síðasta föstudag skrifuðu undir samstarfssamning um undirbúning setursins.


„Grunnhugmyndafræðin að baki setrinu liggur í því að háskólasamfélagið er að taka miklum stakkaskiptum. Það vill svo til að Háskólinn á Akureyri er ekki bara háskóli á Norðurlandi heldur nær til landsins alls í gegnum sveigjanlegt fjarnám,“ sagði Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA á föstudag.

Hann bendir á að háskólar séu að þróast úr því að vera stofnanir á einum stað, byggðar út frá stóru bókasafni, yfir í að geta verið margar litlar einingar. Þar safnist nemendur, og kennarar, saman og myndi námssamfélög. Þá leið hefur HA til dæmis farið með að bjóða upp á tölvunarfræðinám frá Háskólanum í Reykjavík.

„Í dag er háskólinn ekki staðsetning sem slík, þekkingin er þarna úti. Tölvubyltingin gefur okkur færi á að hugsa háskólasamfélagið á allt annan hátt en fyrir 100 árum þar sem reynt var að búa til eina umgjörð utan um tiltekið samfélag.

Nemendur þurfa hins vegar námssamfélög. Að geta komið saman, sama hvað þeir eru að læra, og stundað sitt nám hlið við hlið sem hluti af háskólasamfélagi. Slíkt samfélag er hægt að búa til nánast hvar sem er svo lengi sem hægt er að ná upp tilteknum kjarna.“

Hann segir Austurland vel í stakk búið til að fóstra slík samfélög en hægt er að vísa í uppbyggingu Háskólaseturs Vestfjarða, sem einnig er í samstarfi við HA. Þar er námsbraut í haf- og strandsvæðastjórnun en áherslan eystra verður á náttúru- og tæknigreinar.

„Með faglegum stuðningi er hægt að byggja upp til framtíðar sértækt nám sem hentar Austurlandi. Samfélagið Austurland getur í heild sinni boðið upp á sömu þjónustu og borgarsamfélög.

Við spyrjum okkur að því hvað unga fólkið vilji. Það vill ekki endilega risastór samfélög eða háhýsi heldur hafa aðgangi að þeirri þjónustu sem samfélög nútímans bjóða upp á.“

Stærstu fyrirtæki Fjarðabyggðar eru aðilar að samkomulaginu. Eyjólfur segir stuðning heimafólks mikilvægan.

„Svona setur verður aldrei til nema að það komi stuðningur úr héraði og það sama var á Vestfjörðum. Þar kom heimafólk verkefninu af stað.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar