„Hann er alveg heillaður af landinu“

„Að endingu gaf hann Seyðisfjarðarskóla tvö verka sinna, en um heilt ár tekur að vinna hvert verk, þannig að segja má að þetta sé alveg klikkuð gjafmildi,“ segir Unnur Óskarsdóttir, grunnskólakennari á Seyðisfirði, en japanski listamaðurinn Mineo Akiyama gaf skólanum tvö verka sinna í síðustu viku.



Mineo Akiyama hefur komið til Íslands og á Seyðisfjörð þrjú ár í röð og er heillaður af landi og þjóð. Hann ferðast um heiminn og hittir fólk sem hann fræðir um alheiminn og orkuna sem býr í okkur og allt um kring.

„Ég hef kynnst fjölda fólks gegnum stjörnuspekina, þar á meðan japönsku konunni Keiko Ito sem ég hitti á Indlandi fyrir mörgum árum. Hún er stjörnuspekingur, túlkur og blaðamaður og þekkir einnig Mineo Akiyama. Þegar hann frétti að hún hefði tengsl til Íslands bað hann hana að koma því á fót að hann gæti komið líka. Þetta var þriðja árið í röð sem hann kemur til Íslands og á Seyðisfjörð. Hann er alveg heillaður af landinu og þá sérstaklega því að komast í þessa ósnertu náttúru auk þess að þurfa ekki að vera í þeirri fólksmergð sem hann þekkir frá sínu heimalandi. Hann segir jafnframt eitthvað mjög magnað við orkuna á Íslandi og langar að geta boðið samlöndum sínum að koma hingað og upplifa þetta. Hann ætlar að koma aftur að ári og þá stoppa lengur,“ segir Anna Karlsdóttir, stjörnuspekingur sem búsett er á Seyðisfirði.

Börnin voru yfir sig hrifin
„Mineo Akiyama vildi hitta Seyðfirsk börn og þar sem skólinn var búinn hitti hann hóp barna í skólagörðunum. Hann gerir guðdómlegar punktateikningar sem hann sýndi krökkunum ásamt því að fræða þau um listina. Ég hef kennt þessum krökkum og áttaði mig ekki á því hvort þau hefðu þolinmæði til þess að hlusta en það varð svo sannarlega raunin. Hann sagði svo skemmtilega frá og þau voru alveg yfir sig hrifin – hann talaði um hvern punkt sem eitt skref og það væri ekki hægt að taka mörg skref í einu, þannig að þetta var líka á heimspekilegu nótunum,“ segir Unnur.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar