Hafði unnið við bankastörf í húsinu í 30 ár

Hótel Eskifjörður er glæsilegt 14 herbergja hótel sem opnaði um sjómannadagshelgina eftir eigendaskipti og endurbætur. Einn eigandanna hafði áður unnið við bankastörf í húsinu í 30 ár.



Hótel Eskifjörður er í eigu þriggja hjóna, þeirra Árna Helgasonar og Sólveigar Kristmannsdóttur, Sævars Guðjónssonar og Berglindar Steinu Ingvarsdóttur og Egils Helga Árnasonar og Guðrúnar Rúnarsdóttur.

Hótelið er í gamla Landsbankahúsinu og eftir breytingar eru þar 14 tveggja manna herbergi og tvö þeirra eru sérútbúin fyrir fatlaða, en stefnan er tekin á að herbergin verði 17 talsins. Glæsilegur hótelbar er á jarðhæðinni en hann er jafnframt opinn fyrir almenning.

Hvernig kviknaði þessi hugmynd, að breyta bankahúsnæðinu í hótel? „Húsið hafði staðið autt frá því að Landsbankinn hætti starfsemi sinni þar árið 2012. Það var Andrés Elísson, rafvirki hér á Eskifirði, sem fékk hugmyndina og fékk til liðs við sig sjö manna hóp, þar á meðal okkur Sólveigu,“ segir Árni.

Hópurinn keypti húsnæðið árið 2014 og opnaði vorið 2015. Breytingar urðu svo á eigendahópnum síðstliðinn vetur þegar núverandi hópur myndaðist. Ráðist var í endurbætur þar sem tveimur herbergjum var bætt við, hótelbarinn opnaður og fleira.


Peningageymslan verður vínkjallari

Svo skemmtilega vill til að Sólveig á sér langa sögu með húsinu. „Ég vann hér í Landsbankanum í 30 ár og leið alltaf mjög vel, þannig að segja má að ég tengist húsinu ákveðnum tilfinningaböndum. Auðvitað er svolítið sérstakt að vera komin aftur en svona er þetta nú oft í lífinu, það gerist eitthvað skrítið og skemmtileg. Ég var búin að afgreiða ansi marga og fara ófár ferðirnar niður í kjallara í peningageymsluna,“ segir Sólveig, en þau hyggjast einmitt gefa henni nýtt líf sem vínkjallara.

„Í verðandi vínkjallara, var Seðlabankinn með aðstöðu sína og geymdi peninga fyrir allan fjórðunginn. Komið var með þá í járnkistum og í fylgd öryggisvarða Seðlabankans,“ segir Sólveig og Árni bætir við; „Þeir sem hafa komið og skoðað hótelið hafa margir sögur að segja frá því þegar þeir sátu skjálfandi og biðu eftir viðtali við bankastjóra, þannig að þetta er hús með skemmtilega sögu.“


Aðsóknin framar vonum

Árni segir aðsóknina hafa farið fram úr björtustu vonum. „Sumarið hefur verið mjög gott og verið fullbókað flesta daga. Einnig eru komnar margar bókanir fyrir næsta sumar, þannig að við erum bjartsýn á framhaldið.“

Árni segir bæjarbúa vera ánægða með framtakið. „Ég held að fólk sé almennt mjög ánægt með að húsið standi ekki lengur tómt heldur hafi öðlast nýtt líf. Aðsóknin á barinn hefur þó verið heldur dræm, en við höfum ekkert auglýst hann og fólk líklega ekki almennt búið að átta sig á þessu, en það kemur.“

Hér má skoða heimasíðu hótelsins. 

 

Ljósmynd KBS - frá hægri: Sólveig Kristmannsdóttir, Guðrún Rúnarsdóttir og Árni Helgason. Á myndina vantar þau Egil Helga Árnason, Berglindi Steinu Ingvarsdóttur og Sævar Guðjónsson. 

Hótel Eskifjörður

Hótel Eskifjörður2

Hótel Eskifjörður3

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar