Hættustig í gildi á Seyðisfirði

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi og Veðurstofu Íslands, lýsti um miðnætti yfir hættustigi vegna skriðufalla á Seyðisfirði. Fleiri minni skriður féllu í gærkvöldi en beðið er eftir að sjá verksummerki þegar birtir.

Hættustigi er lýst yfir ef heilsu og öryggi manna, umhverfis eða byggðar er ógnað af náttúru- eða mannavöldum, en ekki svo alvarlega að um neyðarásand sé að ræða.

Síðasta skriðan sem vitað er af féll um klukkan tíu í gærkvöldi en ekki er talið að hún hafi valdið miklum skemmdum.

Í frétt frá ofanflóðadeild Veðurstofunnar segir að í kjölfar stóru skriðanna tveggja hafi fallið fleiri skriður sem meðal annars hafi náð niður í garða við hús sem rýmd voru. Þá hafi gengið aur úr skriðusárinu í Botnum sem náð hafi inn í bæinn.

Tekin var ákvörðun um rýmingu um 50 húsa við fjórar götur bæjarins eftir að tvær skriður féllu inn í bæinn með um hálftíma millibili um klukkan þrjú í gær. Vegna þessa yfirgáfu um 120 manns heimili sín. Opnuð var fjöldahjálparmiðstöð í félagsheimilinu Herðubreið þar sem fólkið fékk kvöldmat en enginn gisti þar þó.

Björgunarsveitir og lögregla hafa í morgun fylgt fólki til síns heima til að sækja nauðsynjar og gera nauðsynlegar ráðstafanir.

Almannavarnir og Veðurstofan sitja nú á fundi til að taka stöðuna. Von er á tilkynningu um klukkan tíu með frekari upplýsingum.

Skriður hafa fallið víðar eystra eftir nær samfelldar rigningar undanfarna viku og er óvissustig almennt í gildi á Austfjörðum.

Mynd: Ómar Bogason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.