Grunnskólar Múlaþings lokaðir í tvo daga

Samkvæmt þeim reglum sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur kynnt í tengslum við hertar sóttvarnaraðgerðir er ekki heimilt að hafa grunnskóla opna og því verða grunnskólar Múlaþings lokaðir þá tvo skóladaga sem eftir eru fram að páskaleyfi. Frístund er einnig lokuð þessa daga.


Þetta kemur fram á vefsíðu Múlaþings þar sem fjallað er um áhrif hertra sóttvarna á leik- grunn- og tónlistarskóla í Múlaþingi

„Hertar sóttvarnarreglur hafa minni áhrif á starfsemi leikskóla því leikskólum er heimilt að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum, ef hægt er að tryggja að ekki séu fleiri en 10 fullorðnir einstaklingar í hverju rými,“ segir á vefsíðunni.

„Aðstaða í leikskólum Múlaþings er afar ólík og því er óhjákvæmilegt að þessar hertu reglur geti haft einhver áhrif á skipulag starfsins í einstaka skólum. Þar sem til þess kemur munu foreldrar fá upplýsingar um það frá hlutaðeigandi skólum. Almennt er annars gert ráð fyrir að leikskólarnir séu opnir eins og venja er.“

Þá kemur fram að foreldrar hafa ekki heimild til að koma inn í leikskólabyggingarnar á meðan á þessum hertu aðgerðum stendur.

„Þar sem foreldrar hafa tök á að takmarka veru barna sinna í leikskólunum eða hafa þau heima einhverja af þeim dögum sem þessar hertu reglur gilda þá aðstoðar það skólana við þessar aðstæður og er því vel þegið,“ segir á vefsíðunni.

Ennfremur segir að enginn kennsla verður í tónlistarskólum þá tvo daga sem eftir eru fram að páskafríi.

Þegar ljóst verður hvaða reglur muni gilda um skólastarf eftir páska munu þær verða kynntar foreldrum og því er mikilvægt að fylgjast vel með tilkynningum frá skólunum og upplýsingum á heimasíðu sveitarfélagsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar