„Gríðarlegt magn sem kom í nótt“

Hreinsunarstarf síðustu daga virðist hafa komið í veg fyrir að verr færi þegar aurskriða færði húsið Breiðablik úr stað á Seyðisfirði í nótt. Skriðan umlykur bensínstöð Orkunnar og þarf því að flytja eldsneyti ofan af Héraði.

„Við erum að byrja í jaðrinum og keyra því sem hægt er í burtu þannig að hægt verði að komast inn í aðalhæðina þegar styttir upp,“ segir Kári Ólason, verkstjóri hjá sveitarfélaginu Múlaþingi.

Húsið að Austurvegi 38, betur þekkt sem Breiðablik, færðist um 50 metra af grunni sínum og snérist hálfhring þegar skriða féll á það um klukkan þrjú í nótt. Það stendur nú við innri enda bensínstöðvarinnar.

Skriða féll á sama svæði á þriðjudag en Kári telur þá sem kom í nótt vera stærri. „Það er gríðarlegt magn af efni sem hefur komið með skriðunni í nótt. Það sem við gerðum í gær er fullt og meira en það. Skriðan er bæði bæði þykkari og breiðari.

Okkur hafði gengið ágætlega síðustu tvo daga og vorum komin upp í skriðuna. Mér skilst að sú vinna hafi trúlega bjargað einu húsi í nótt, ef ekki tveimur.“

Þrjú tæki eru að störfum í jaðri skriðunnar, tvær gröfur og einn vörubíll. Fylgst er með hreyfingum í fjallinu og tækin umsvifalaust kölluð út af svæðinu ef eitthvað gerist. Slíkt gerðist upp úr klukkan ellefu þegar lítil spýja virðist hafa komið niður Breiðablikslækinn.

„Við förum varlega og erum með talstöðvar í öllum tækjum. Við höfum einu sinni í morgun fengið skilaboð um að bakka út. Þá heyrðist skruðningar í fjallinu. Svo fengum við leyfi til að byrja aftur tíu mínútum síðar.“

Það auðveldar ekki stöðuna að eina bensínstöðin á Seyðisfirði sé a´svæði sem alls ekki má fara inn á. „Vinnuvélarnar eru með góðan forða en þetta skapar vandræði fyrir dælur og minni tæki björgunarsveitar og slökkviliðs. Við fáum birgðir sendar af Héraði fyrir þær. Svo kemur að því að við þurfum birgðir á vélarnar en þær endast daginn.“

Eins og fleiri bíður Kári þess að úrkoman minnki. „Við förum inn í skriðuna þegar veðrinu slotar. Þá munum við bæta í tækjaflotann. Það er komin ein grafa til viðbótar á staðinn.“

Seydisfjordur Skrida 20201218 0001 Web
Seydisfjordur Skrida 20201218 0003 Web
Seydisfjordur Skrida 20201218 0006 Web
Seydisfjordur Skrida 20201218 0011 Web
Sfk Skrida 20201216 0015 Snyrt Web
Sfk Skrida 20201216 0029 Snyrt Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar