Skip to main content

Geislunartækjum ætlað að hreinsa neysluvatn Stöðfirðinga til frambúðar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. sep 2025 15:15Uppfært 11. sep 2025 15:46

Búið er að panta geislunartæki sem ætlað er að koma í veg fyrir ítrekaða mengun í neysluvatni á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði og stefnt á að það verði komið í gagnið um miðjan október. Mengun hefur verið staðfest í vatni Stöðfirðinga eftir rigningar síðustu daga og því talið nauðsynlegt að sjóða neysluvatn.


Slík tilmæli hafa reglulega verið gefin út ýmist eftir stórrigningar eða þurrka en þá er hættara við að mengun berist í kerfið. Í dag var staðfest að sýni sem tekið var í vikunni innihéldi E.coli og coli gerla yfir mörkum. Nauðsynlegt er því talið að sjóða vatn til neyslu.

Slík tilmæli voru líka í gildi yfir verslunarmannahelgina en mengun greindist við reglulegt eftirlit. Eftir það atvik var hert á aðgerðum til að koma í veg fyrir mengunina til frambúðar. Fyrsta verkefnið var að kanna ástand vatnskerfisins og síðan ákveða aðgerðir. Niðurstöður athugana voru lagðar fyrir bæjarráð á mánudag sem á sama fundi staðfesti aðgerðir.

„Það er búið að panta geislatæki sem sett verður upp fyrir neðan einn tankinn. Eins voru pöntuð tvö önnur tæki fyrir aðra staði í kerfinu. Tækin eiga að koma eftir 3-4 vikur. Tíminn þangað til verður notaður til að undirbúa uppsetningu þeirra. Um miðjan október ættu þau að vera komin upp og í virkni.

Með þessu vonumst við til við til að ná að geisla allt neysluvatn á Stöðvarfirði,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Um leið voru pöntuð tæki fyrir Breiðdalsvík og verða þau sett upp á sama tíma.

Geislunartækin umræddu notast við útfjólublátt ljós til að drepa bakteríur og gró þeirra. Þau eru notuð víða, bæði á stærri og minni veitum en samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Austurlands eru slík tæki til dæmis á Vopnafirði, Seyðisfirði, Eskifirði og Djúpavogi.

Búið að kortleggja vatnskerfið á Stöðvarfirði


Vatnskerfið á Stöðvarfirði er gamalt og byggist upp á mörgum brunnum og tengingum sem byggst hafa upp í áranna rás. Ekki voru til heildstæðar teikningar af því. Þess vegna voru í ágúst gerðar þrýstingsprófanir til að skilja hvernig það lægi. Nokkrir eldri brunnar voru strax teknir úr notkun.

Í umræðunni var hvort skipta þyrfti um tanka á Stöðvarfirði en Jóna segir að ekki sé talin þörf á því strax. Hins vegar verði haldið áfram að vinna að endurbótum á vatnskerfinu þar.

Meðal þess er breyting á vatnslögn í Innri-Einarsstaðaá sem skemmdist í miklu vatnsveðri í byrjun febrúar. Lagnirnar hafa verið á tveimur stöðum í ánni, en þeirri neðri verður lokað og sú efri styrkt.

Nánar aðspurð um mengunina sem kom upp í ágúst segir Jóna að hún hafi virst einskorðuð við ákveðinn stað í bænum en ekki dreifð um kerfið. Verið er að skoða með Heilbrigðiseftirliti Austurlands hvernig best sé að haga sýnatökum til frambúðar.

Ekki verða tekin fleiri sýni úr vatninu á Stöðvarfirði fyrir helgi því næstu daga er spáð áframhaldandi úrkomu. Tilmælin um að sjóða vatnið verða því í gildi fram í næstu viku.