Skip to main content

„Vissum aldrei úr hvaða átt næsta hviða kæmi“ - Myndir

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. feb 2025 17:59Uppfært 07. feb 2025 18:00

Hreinsunarstarf hófst á Stöðvarfirði í morgun eftir óveðrið sem gekk yfir bæinn í gær. Tugmilljóna tjón hefur orðið þar. Íbúar lýsa því að vindurinn hafi staðið úr öllum áttum.


Starfsmann Fjarðabyggðarhafna og þjónustumiðstöðvar Fjarðabyggðar fóru til aðstoðar við Stöðfirðinga strax í morgun. Heimafólk stóð að mestu eitt í mestu hamförunum því ekki var hægt að senda þangað liðsstyrk.

Engin björgunarsveit er í bænum en hins vegar einstaklingar sem tilheyra slökkviliðinu. Þeir stóðu vaktina frá því að byrjaði að hvessa þar til lægði seinni partinn í gær. Ekkert var hægt að aðhafast varðandi það sem var að fjúka, aðeins að tryggja hluti þegar þeir lentu.

Fleiri en tíu íbúðarhús eru skemmd eftir veðrið, þar af eitt mjög mikið. Rúður brotnaði í fjölda bíla. Í húsnæði Fiskmarkaðarins var búið að koma í skjól sex bifreiðum. Í sumum var varla heil rúða.

Sprungnir garðskúrar


Við Heiðmörk 13, efst í þorpinu, þakið af bílskúr. Brak úr því féll á þrjá bíla utan við húsið og skemmdi þá töluvert. Hluti þaks hússins sjálfs fór einnig af í kjölfarið lak inn á nokkrum stöðum. Húsið er þó íbúðarhæft. „Það kemur sér vel að eiga Tupperware,“ segir Laufey Davíðsdóttir sem býr í húsinu.

Mestar skemmdir virðast hafa orðið á húsum við Skólabraut/Túngötu. Við innsta húsið í neðanverðri götunni sprakk garðskúr og bátur á kerru hringsnérist áður en hann fauk á hvolf. Í húsinu sjálfu skemmdist aðeins ein rúða.

Í höfninni brotnaði fingur út frá einni bryggju og landgangur féll niður. Bátar lögðust þar nánast á hliðina undan hvassviðrinu. Einn bátur mun hafa orðið fyrir minniháttar skemmdum. Kafari kannaði skemmdir undir vatnsborðinu í dag.

Víða eru brotin tré í görðum. Unnið var að því í dag að fjarlægja þau sem og annað brak sem var fergt í gær. Í morgun snjóaði töluvert sem gerði erfiðra um vik að sjá brak.

Árnar urðu að stórfljótum


Stöðfirðingar lýsa ofsaveðrinu þannig að vindurinn hafi staðið úr öllum áttum. Um miðnætti á miðvikudag sá ekki milli húsa í verstu rokunum. Þeir tala einnig um að skýstrókar hafi gengið í gegnum bæinn og aldrei hafi verið hægt að koma hlutum í skjól, því ekkert var öruggt um úr hvaða átt næsta hviða kæmi.

Þótt heldur lægði þegar líða tók á gærdaginn var ekki allt búið enn. Á Stöðvarfirði hellirigndi og árnar í gegnum bæinn breyttust í stórfljót. Þær grófu úr bökkum sínum og báru fram töluvert efni. Neðan við veginn í gegnum bæinn hafði Ytri-Einarsstaðaá fyllt um metra upp að trjám sem þar standa.

Hólkur utan um neysluvatnslögn í ánni gaf sig en lögnin lafir. Stöðfirðingum ráðlagt að sjóða neysluvatn þar sem líkur eru á að yfirborðsvatn hafi komist í neysluvatnið. Sýni var tekið úr því í dag.

[widgetkit id="364" name="20250207: Tiltekt á Stöðvarfirði eftir óveður"]