Gæðasíld mokveiðist á síldarmiðunum

Gríðarmikið er af síld á Glettinganesgrunni og mokveiðist hún í augnablikinu. Um gæðasíld er að ræða eða eins og best verður á kosið.

Fjallað er um málið á vefsíðu Síldarvinnslunnar. Þar segir að Margrét EA hafi komið til Neskaupstaðar á laugardagskvöld með 1150 tonn af síld. Fékkst síldin í tveimur holum, annað stóð í 105 mínútur og hitt í 115 mínútur.

„Það gekk eins og í sögu. Við stoppuðum í átta og hálfan klukkutíma á miðunum og fengum þessi 1150 tonn í tveimur 100 mínútna holum. Fyrra holið var 105 mínútur og hið seinna 110", segir Birkir Hreinsson skipstjóri á Margréti EA í samtali á vefsíðunni.

Hann segir einnig að á Glettinganesgrunni sé gríðarmikið af síld að sjá og engin vandræði að fá góðan afla. Síldin er líka eins og best verður á kosið. Hún er 420 grömm að meðaltali og algerlega átulaus.

„Þetta er eins gott hráefni til vinnslu og hugsast getur enda vorum við bara þrjá tíma á leiðinni í land og hráefnið getur vart verið mikið ferskara. Það verður búið að vinna aflann upp úr hádegi í dag,“ segir Birkir.
 
Farmur Margrétar er annar síldarfarmurinn sem berst til vinnslu í Neskaupstað á þessari nýbyrjuðu síldarvertíð. Börkur NK kom með fyrsta farminn sl. föstudag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.