Fluttur með sjúkraflugi eftir útafakstur á Háreksstaðaleið

Karlmaður um tvítugt var fluttur meðvitundarlaus með sjúkraflugi til Reykjavíkur eftir bílveltu á Háreksstaðaleið seinni partinn í gær.


Lögreglu barst tilkynning um slysið klukkan 16:40 í gær. Óttast var að slysið væri alvarlegt þar sem ökumaðurinn, sem var einn á ferð, var án meðvitundar.

Hann var sendur með sjúkrabíl til Vopnafjarðar og þaðan áfram til Reykjavíkur. Hann er enn á sjúkrahúsi þar undir eftirliti lækna en er mun minna slasaður en óttast var í fyrstu.

Slysið varð skammt frá afleggjaranum til Vopnafjarðar. Jeppabifreið mannsins virðist hafa farið út af veginum og oltið nokkrar veltur. Ökumaðurinn virðist ekki hafa verið í bílbelti og þess vegna kastast út úr bílnum.

Þær upplýsingar fengust hjá lögreglu að tildrög slyssins væru ókunn og því í rannsókn. Bíllinn er gjörónýtur.

Mynd: Aðsend

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar