Fjarðabyggð og Múlaþing hyggjast fyrna ótekið orlof starfsmanna sinna

Allt ótekið orlof starfsmanna Fjarðabyggðar og Múlaþings mun falla dautt niður þann 30. apríl næstkomandi samkvæmt ákvörðunum þeirra sveitarfélaga nema sterkar málefnalegar ástæður komi til. Það merkir að starfsfólk sem ekki hefur klárað orlof sitt fyrir þessa dagsetningu missir alla áunna frídaga sem eftir standa og fær engar bætur fyrir.

Ágreiningur er á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Alþýðusambands Íslands um þennan gjörning en ofangreind sveitarfélög túlka tiltekna grein í aðalkjarasamningi með þeim hætti að slík fyrning sé bæði leyfileg og eðlileg og þar vísað í orlofslög og gildandi kjarasamninga. Verkalýðsfélögin eru á öndverðum meiði en þau miða jafnframt við sömu orlofslög auk sérstakrar tilskipunar Evrópusambandsins sem einnig gildir hér á landi.

Að mati verkalýðsfélaganna, þar með töldu starfsgreinafélaginu Afli á Austurlandi, er hér í raun verið að fella niður áður óunnin laun en samkvæmt samkomulagi á vinnumarkaði fær starfsfólk tiltekna upphæð greidd í laun með loforði um að síðar verði önnur upphæð greidd sem orlofspeningar. Með fyrningu sé það loforð brotið.

Austurfrétt hefur fengið staðfest að Fjarðabyggð og Múlaþing hyggjast standa fast á túlkun sveitarfélaganna og fyrna allt ótekið orlof nema starfsfólk geti gefið gildar ástæður fyrir að ljúka ekki töku orlofs að fullu áður en næsta orlofsár hefst. Hvorki Fljótsdals- og Vopnafjarðarhreppur hyggjast fyrna útistandandi orlof starfsmanna sinna. Fyrir sitt leyti hefur AFL starfsgreinafélag varað umrædd sveitarfélög við að félagið muni gæta hagsmuna félagsmanna sinna þegar og ef til fyrnunar kemur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar