Ferðamenn dvelja skemur og fara síður út á land

Vísbendingar eru um að ferðamenn séu farnir að halda að sér höndum í Íslandsheimsóknum með minni neyslu og styttri ferðum. Það sést meðal annars á nýtingu hótelherbergja á Austurlandi. Talsverður vöxtur er í vöruútflutningi, einkum álafurðum og frá fiskeldi.

Þetta kemur fram í samantekt um utanríkisverslun sem greiningardeild Arion-banka sendi frá sér nýverið.

Ferðaþjónustan heldur uppi þjónustuútflutningi en blikur eru á lofti vegna styrkingar krónunnar. Fjölgun ferðamanna er minni en spáð var og tekjur á hvern ferðamann eru minni.

Velta á hvern ferðamann hefur minnkað á nær öllum sviðum svo sem kaupum á menningu, veitingu, gistingu, ferðum og verslun annarri en dagvöruverslun. Ber það saman við frásagnir austfirskra ferðaþjóna, sem Austurfrétt hefur rætt við, um að ferðamenn kaupi inn í stórmörkuðum og nýti aðstöðu í gistingunni til að elda.

Í skýrslunni segir að sterkar vísbendingar hafi sést í fyrra um að ferðamenn dveljist styttra og heldur virðist hraða á þeirri þróun miðað við tölur af gistinóttum.

Nýting hótelherbergja á Austurlandi í janúar-apríl í ár var innan við 20%. Þótt hún hafi aukist um nokkur prósentustig milli ára er nýtingin samt minnst þegar landshlutarnir eru bornir saman, næst er Norðurland með 30% nýtingu. Á sama tíma er nýtingin á höfuðborgarsvæðinu 90%.

Talsverður vöxtur er í vöruútflutningi, sé litið framhjá sjómannaverkfallinu, sem skýrist aðallega af hærra álverði og mikilli aukningu á fiskeldi. Þá er verð sjávarafurða í erlendri mynt hátt um þessar mundir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.