Fara yfir öryggismál á skíðasvæðum eftir snjóflóð um síðustu helgi

Almannavarnir á Austurlandi, í samstarfi við sveitarfélögin Fjarðabyggð og Múlaþing, hefur sett í forgang að fara yfir öryggismál á skíðasvæðunum. Þrettán ára drengur bjargaðist úr snjóflóði sem féll nærri skíðasvæðinu í Stafdal síðasta laugardag. Sama dag féllu tvö flóð nærri Oddsskarði. Flóðin fóru af stað undan skíðafólki á ferð.

„Við tökum þessa atburði alvarlega. Þess vegna förum við í það af auknum krafti að skoða hvar við erum stödd varðandi skíðasvæðin í kjölfar þessa atburðar, sem blessunarlega endaði vel, til að fara yfir hvort og þá hvað þurfi að rýna,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.

Í tilkynningu sem almannavarnanefnd Austurlands sendi frá sér í morgun kemur fram að hafin sé vinna með sveitarfélögunum í að rýna verkferla á skíðasvæðunum. Meðal annars verði farið yfir öryggisbúnað, þjálfun starfsfólks, hættumat, áætlanagerð og fleira. Fagaðilar á borð við Veðurstofu Íslands, lögregla og svæðisstjórn Austurlands taka þátt í vinnunni.

RÚV greindi frá því í gær að tveir þrettán ára drengir hefðu verið á ferð þar sem flóðið féll í Stafdal, í gili rétt utan brautar. Sá sem slapp gróf hinn upp. RÚV greindi einnig frá því að vinnu við hættumat skíðasvæðisins hefði aldrei verið lokið.

Hættumat fyrir Stafdal og Oddsskarð


Samkvæmt reglugerð um hættumat skíðasvæða frá árinu 2009 átti hættumati og áætlanagerð vegna skíðasvæða að vera lokið árið 2014. Á upplýsingasíðu um hættumat Stafdals á vef Veðurstofunnar segir að vinna hafi legið við matið og áætlað að taka hana upp að nýju árið 2021 þannig henni verði lokið fyrir árið 2025.

Gerð hættumatsins fyrir Oddsskarð var lokið árið 2011. Í því er sérstaklega varað við hættu undir Magnúsartindi, þar sem eitt flóðanna varð á laugardag. Í matinu er sérstaklega bent á að færa þurfti barnalyftuna undir Sólskinsbrekku vegna snjóflóðahættu. Nýtt skipulag fyrir svæðið var samþykkt í fyrra en hvorki er búið að færa lyftuna ná koma upp vörnum.

Áhyggjur af slysum í snjóflóðum í frítíma fólks


Vinna við öryggi skíðasvæðanna var hafin fyrir flóðin um síðustu helgi. Hættan var ávörpuð á stórum almannavarnafundi í Neskaupstað síðasta haust. Þar var komið inn á hvernig alvarlegustu snjóflóðaslysin, bæði hérlendis sem erlendis, verða í frítíma fólks þar sem fólk á ferð í brattlendi setji af stað flóð. Það verði tíðara samfara aukinni útivist. Slík óhöpp geta verið snúin, meðal annars þurfi að meta hvort óhætt sé að senda björgunarfólk inn á svæði.

Samkvæmt fyrrnefndi reglugerð eiga rekstraraðilar skíðasvæðanna, sem á Austurlandi eru sveitarfélögin, að gera áætlanir um daglegt eftirlit með ofanflóðahættu. Þá hefur verið rætt um að vera viðbragðsáætlanir fyrir skíðasvæðin. Veðurstofunni er ætlað að vera til ráðgjafar í þessum efnum.

Ekki mikið verk óunnið


Kristján Ólafur segir að nú sé settur aukinn kraftur í vinnu sem þegar hafi verið í gangi sem vonandi skili sér fljótt. „Eftir fundinn í haust fór fram frekari vinna og aðilar voru að skipta með sér verkum varðandi skíðasvæðin. Nú verður sett aukið afl í þessa vinnu. Við teljum að það sé ekki mikið verk óunnið þannig það sé hægt að vinna hratt og ljúka þessu á nokkrum vikum.“

Á fundi heimastjórnar Seyðisfjarðar í gær var samþykkt ályktun þar sem brýnt er að vinnu við hættumatið í Stafdal verði lokið sem fyrst, enda hafi það tafist í fjölda ára. Því er beint til fjölskylduráðs Múlaþings að fylgja málinu eftir við Veðurstofu Íslands og veita upplýsingar um hvenær vænta megi þess að matinu verði lokið. Þá sé brýnt að yfirfara verklag snjóflóðaeftirlits, öryggis og viðbragðs í Stafdal.

Enn er talin töluverð snjóflóðahætta í brattlendi á Austfjörðum. Á mánudag barst fjöldi tilkynninga um lítil flóð á Eskifirði og Norðfirði vegna hláku.

Mynd: Veðurstofa Íslands

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.