Skip to main content

Snjóflóð við sitt hvort skíðasvæðið í dag

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. mar 2024 20:18Uppfært 02. mar 2024 20:18

Fólk á skíðum utan brauta settu af stað samtals þrjú snjóflóð við skíðasvæðin tvö á Austurlandi í dag. Einstaklingi var bjargað úr því flóði sem féll við Stafdal.


Í samantekt ofanflóðadeildar Veðurstofunnar kemur fram að tvö flekaflóð hafi fallið í Oddsskarði og eitt við Stafdal.

Tveir voru á ferð þegar snjóflóðið í Stafdal féll um klukkan fjögur í dag. Það féll í gili nærri skíðaleið. Annar skíðamannanna grófst undir í flóðinu en hinn náði að bjarga honum út. Sá sem lenti í flóðinu var fluttur til læknis, lerkaður en ekki stórslasaður. Aðeins er vika síðan skíðaiðkandi kom af stað flóði sem var um 100 metra breitt nærri Stafdal.

Enginn lenti í flóðunum í Oddsskarði. Þau voru nokkuð minni. Annað þeirra féll þegar skíðamaður renndi sér niður á milli klettanna norðan við barnalyftuna, hitt fór af stað þegar skíðamenn þveruðu hlíðar Magnúsartinds. Fram kemur að öll snjóflóðin hafi fallið í ótroðnum leiðum sem skíðafólk nálgaðist úr skíðalyftum.

Í yfirlitinu segir að talsvert hafi snjóað eystra eftir hlákuna á mánudag og skafið undan norðanátt. Vindflekari hafi byggst upp sem geti verið þykkir í giljum og drögum þar sem snór hafi safnast saman. Léleg binding sé milli nýju vindflekanna og eldri snjós.

Þess vegna séu aðstæður varasamar fyrir fólk á ferð í brattlendi, jafnvel þótt það sé nærri troðnum skíðabrekkum eða jafnvel í byggð.

Mynd úr safni frá Veðurstofu Íslands.