Fær evrópskan frumkvöðlastyrk: Sjáum ekki eftir að hafa einbeitt okkur að sæbjúgunum

Aurora Seafood, fyrirtæki Davíðs Freys Jónssonar frá Egilsstöðum, fékk nýverið tæplega 190 milljóna króna Evrópustyrk til þróunar á veiðum og vinnslu sæbjúgna. Fyrirtækið hyggur á landvinninga erlendis með tækni sína.


„Við stofnuðum Aurora Seafood til að vera í jaðri sjávarútvegsins. Við fórum fljótlega að einbeita okkur að sæbjúgunum þar sem við töldum mestu möguleikana vera og sjáum ekki eftir því,“ segir Davíð Freyr í samtali við nýjasta tölublað Austurgluggans.

Fyrirtækið fékk nýverið styrk úr H2020 áætlun Evrópusambandsins upp á 1,7 milljónir evra, eða um 188 milljónir á gengi vikunnar. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt frumkvöðlafyrirtæki í sjávarútvegi hlýtur svo háan styrk. Styrkumsóknin var undirbúin með íslenska ráðgjafarfyrirtækinu Evris og spænska fyrirtækinu Inspiralia.

Þróa tækni til útflutnings

Davíð Freyr segir styrkinn auðvelda fyrirtækinu að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Aðalvinna Aurora Seafood snýr að því að þróa vinnslubúnað og plóga sem notaðir eru til að veiða sæbjúgu.

„Áður voru notaðir þungir skíðisplógar sem berjast á hafsbotninum og þrýsta sér yfir allt. Plógunum hefur verið breytt þannig þeir valdi eins litlu raski og hægt er og nemum hefur verið bætt við þá til að fylgjast með þeim í toginu. Við rannsökum síðan með Hafrannsóknastofnun hvort tilraunir okkar skili raunverulegum árangri og það verður væntanlega gert á næsta ári.

Síðan erum við að þróa vinnslubúnað með Völku með vatnsskurðar- og myndgreiningartækni. Á heimsvísu hefur vinnslubúnaður fyrir sæbjúgu ekki fengið mikið fé til þróunar og er í raun stutt á veg kominn, samanborið við vinnslu á t.d. hvítfiski, svo það verður stórt skref takist okkur að breyta vinnslunni.“

Gangi eftir að breyta veiðarfærunum verður til vara sem hægt er að selja erlendis enda Íslendingar eina Evrópuþjóðin sem stundar sæbjúgnaveiðar af krafti. „Við viljum aðstoða nágrannaríkin við að koma veiðum af stað. Norðmenn bönnuðu plógveiðar eftir slæma reynslu en við finnum fyrir áhuga þaðan fyrir að opna ákveðin svæði og framkvæma tilraunaveiðar.“

Bestu miðin fyrir Austfjörðum

Davíð Freyr er framkvæmdastjóri og einn eigenda Aurora Seafood en faðir hans Jón Hlíðdal á einnig hlut í því. Grunnurinn að Aurora varð til þegar Davíð Freyr og félagar hófu vinnslu á sæbjúgum snemma árið 2015 en fljótlega bættist við teymið Kári P. Ólafsson sem var maðurinn á bak við Reykofninn í Grundarfirði. Fyrirtækið var m.a. í eigu FISK Seafood sem ákvað að hætta sæbjúgnaveiðum. Einnig var Bergur Garðarsson ráðinn skipstjóri á Klett ÍS, en Bergur var skipstjóri á skipi Reykofnsins frá upphafi.

Báturinn Klettur ÍS er stóran hluta ársins á veiðum úti fyrir Austfjörðum. „Miðin eru best þar, báturinn er þar meirihluta ársins og meðal annars verið þar undanfarinn mánuð. Samt er bara einn bátur gerður út af Austfirðingum á sæbjúgnaveiðar. Flestir koma að vestan og sækja austur fyrir.“

Héraðsbúinn sem fór í útgerð

Davíð Freyr er uppalinn á Egilsstöðum en það kann að vekja furðu einhverra að Héraðsbúi átti sig á tækifærum sem fylgja sjósókn. „Í grunninn var þetta hagfræðileg ákvörðun hjá mér. Árið 2009, þegar allt var í steik, hafði ég val um að fara annaðhvort í frekara nám eða fara að vinna.

Sjávarútvegurinn er eitt af því sem við Íslendingar erum tiltölulega góðir í og þótt hann hafi ekki endilega verið minn vettvangur er á fáum stöðum eins mikið af tækifærum enn í boði fyrir ungt fólk sem vill rótast áfram.

Ég fór fyrst í makríl, sem er líklega stærsta tækifæri minnar kynslóðar. Því miður vorum við ekki margir í yngri kantinum, en það voru aðallega burðugri og eldri menn sem héldu út.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.