Erfiðar aðstæður til leitar í Stafafellsfjöllum

Alls tóku níu manns frá björgunarsveitinni Báru á Djúpavogi þátt í leitinni að manninum í Stafafellsfjöllum í nótt og í morgun. Aðstæður til leitar voru erfiðar sökum veðurs en gul veðurviðvörun var í gangi á svæðinu meðan á leit stóð.

Ingi Ragnarsson formaður Báru segir að fyrsti hópurinn frá þeim, fimm manns, hafi farið af stað eftir að tilkynningin barst um átta leytið í gærkvöldi. Snemma í morgun fóru svo fjórir menn til viðbótar á leitarsvæðið.

„Við tókum nýja drónann okkar með í fyrsta hópnum en það gekk erfiðlega að nota hann vegna rigningarinnar sem var á leitarsvæðinu. Vindurinn var minna vandamál“ segir Ingi.

Eins og fram hefur komið í fréttum fundu tveir smalar manninn er hann var kominn niður úr fjöllunum laust fyrir hádegið. Hann hafði látið fyrirberast í neyðarskýli um nóttina og var heill á húfi.

„Það var mjög slitrótt farsímasamband á þessu svæði endar er mikið af giljum og bröttum skoringum á svæðinu. Maðurinn átti því sennilega í erfiðleikum með að láta vita af sér,“ segir Ingi.

Fram kemur í máli hans að fyrsti hópurinn frá Báru hafi verið við leit þar til klukkan var að verða fjögur í nótt. Þeir fóru þá niður aftur til hvíldar og síðan tók seinni hópurinn við í leitinni.

„Það er ánægjulegt hve þessi leit endaði vel og að maðurinn var heill á húfi þegar hann fannst,“ segir Ingi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.