Ekki rétt að mæla umhverfisáhrif út frá megavöttum

Náttúruverndarsamtök Austurlands vilja að aðrar virkjanir en þær sem ætlaðar eru til heimilisnota þurfi að fara í umhverfismat og inn í rammaáætlun.

Þetta kemur fram í ályktunum frá aðalfundi samtakanna sem haldinn var í byrjun mánaðarins. Þar er hvatt til þess að endurskoðaðir verði allir áhrifaþættir smávirkjana, sem eru allar virkjanir undir 9,9 MW að stærð.

„Það að mæla umhverfisáhrif virkjana út frá megavöttum er að mati Skipulagsstofnunar og þeirra sem helst koma að matsferli óviðeigandi og óraunsætt viðmið. Ljóst er að umhverfisáhrif og umfang virkjana innan þessa stærðarflokks eru afar breytileg eftir staðháttum,“ segir í ályktuninni.

Þess vegna krefjast samtökin þess að allar nýjar virkjanir, utan þeirra sem teljast minniháttar til heimilisnota eða atvinnurekstrar til sveita, fari í umhverfismat og inn í rammaáætlun.

Þá er í ályktunum hvatt til breyttrar umræðu um orkuvinnslu. Veruleg umframorka sé til í landinu og því eigi að slá út af borðinu frekari áform um stórvirkjanir, þar með talið smávirkjanirnar. Hröð framþróun sé í orkugjöfum um þessar mundir og nýjar lausnir komi fram breyti orkuvinnslu.

„Það er því fráleit framtíðarsýn að fórna áfram mörgum af okkar helstu náttúruperlum í þágu sérhagsmunaafla sem nú eru að taka sér stöðu í orkugeiranum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.