Ekkert smit í landi eystra

Ekki er vitað um önnur Covid-19 smit á Austurlandi en þau sem eru um borð í flutningaskipi í Mjóeyrarhöfn. Hertar sóttvarnareglur taka gildi á miðnætti.

Ríkisstjórn Íslands tilkynnti í dag mjög hertar sóttvarnaaðgerðir vegna aukningar innanlandssmita síðustu daga. Þær taka gildi á miðnætti.

Helstu breytingar eru þær að ekki mega fleiri en 10, fæddur 2014 eða fyrr koma saman. Það gildir um bæði erfidrykkjur og fermingaveislur þótt 30 manns megi vera viðstaddir trúarathafnir.

Öllum skólum nema leikskólum er lokað fram að páskafríi og lokað er á sund eða aðrar íþróttir með sameiginlegum búnaði eða nánd með meira en 2 metrum, reglur eru hertar á veitingahúsum og fleira.

Aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands hvetur íbúa til að kynna sér reglurnar á vef stjórnvalda og fylgjast með sérstökum tilmælum eða leiðbeiningum á heimasíðum sveitarfélaga.

Síðast en ekki síst er áréttað mikilvægi persónulegra sóttvarna svo sem tveggja metra fjarlægðarmarka, handþvottar, grímunotkunar og sprittnotkunar á snertiflötum

Á móti hefur aukinn kraftur verið settur í bólusetningar eftir að ákveðið var að hefja aftur notkun efnis AstraZeneca. Heilbrigðisstofnun Austurlands stefnir á að ljúka bólusetningu hjá öllum íbúum fæddum 1949 eða fyrr í næstu viku.

Í tilkynningu lýsir Aðgerðastjórn væntingum um að eiga hér eftir sem hingað til gott samstarf við íbúa. Það sé grunnurinn að því vel hafi gengið að fást við faraldurinn til þessa. „Höldum áfram á okkar góðu vegferð og sjáum þannig til þess í sameiningu að við komumst öll í mark.“

Samkvæmt tölum frá Covid.is er enginn smitaður á Austurlandi en þrír einstaklingar í sóttkví.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.