Eiríkur Björn og Sigríður Ólafsdóttir leiða lista Viðreisnar

Eiríkur Björn Björgvinsson, fyrrum bæjarstjóri á Akureyri og Fljótsdalshéraði og Sigríður Ólafsdóttir, mannauðsráðgjafi og markþjálfi, leiða lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi komandi þingkosningum.

Eins og Austurfrétt hefur áður greint frá skipar Eiríkur Björn oddvitasæti listans.

Eiríkur Björn er íþróttafræðingur að mennt en hann var íþrótta- og tómstundafulltrúi á Egilsstöðum 1994-96 og síðar deildarstjóri íþrótta- og tómstundadeildar Akureyrar áður en hann kom aftur austur til að verða bæjarstjóri Austur-Héraðs, sem síðar varð Fljótsdalshérað, 2002.

Því starfi gegndi hann til 2010 þegar hann varð bæjarstjóri á Akureyri. Hann hefur frá 2018 verið sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar.

„Það þarf að bæta og efla skilning ríkisins á stöðu fólks í kjördæminu og á landsbyggðunum almennt og tryggja jöfnuð milli landshluta. Þá þarf að skapa jarðveg fyrir ungt fólk til að lifa og starfa í kjördæminu og horfa til framtíðar, meðal annars með stuðningi við nýsköpun og frumkvöðla,“ er haft eftir Eirík í tilkynningu Viðreisnar.

Sigríður, sem verður í öðru sætinu, hefur búið á Akureyri í aldarfjórðung. Hún er menntuð í uppeldisog menntunarfræði, stjórnun og með PCC-vottun sem markþjálfi. Lengst af starfaði hún sem stjórnandi og ráðgjafi hjá Capacent Gallup en stofnaði 2017 eigið ráðgjafafyrirtæki, Mögnum.

„Kjördæmið er víðfeðmt og íbúar þess eiga bæði sameiginlegan veruleika en einnig ólíkan veruleika og viðfangsefni. Það sem við eigum öll sameiginlegt er að við erum fólk. Þess vegna vil ég leggja áherslu á samtal, hlustun og sameiginlega leit okkar að lausnum. Þá vil ég einnig leggja áherslu á nýsköpun og hugvit til að fjölga atvinnutækifærum í kjördæminu og auka fjölbreytni atvinnulífsins.

Í störfum mínum undanfarin ár hef ég unnið með fólki og skipulagsheildum sem hafa það að markmiði að læra og ná árangri. Mig langar að færa það yfir í víðara samhengi, yfir á allt samfélagið. Viðreisn vill ná árangri og að við sem samfélag eflumst og lærum hvort af öðru. Þess vegna er ég í framboði fyrir Viðreisn,“ er haft eftir henni.

Þá kemur fram í tilkynningunni að heildarlisti framboðsins verði kynntur fljótlega.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.