Einar efstur hjá Pírötum

Einar Brynjólfsson varð efstur í prófkjöri Pírata í Norðausturkjördæmi sem lauk í dag. Hann hlaut yfirburðakosningu í kjörinu.

Einar, sem sat á þingi fyrir flokkinn 2016-17, fékk 136 atkvæði í 1. sætið. Alls var 281 atkvæði greitt í kjörinu.

Katla Hólm Vilbergs- og Þórhildardóttir varð önnur í prófkjörinu með 95 atkvæði í 1. – 2. sæti. Hún hafði hins vegar gefið það út fyrir prófkjörið að hún sæktist ekki eftir forustusæti því hún býr í Reykjavík en er uppalin í Neskaupstað. Hún óskaði því eftir að taka sæti neðar og verður í fimmta sæti.

Annað sætið fær Hrafndís Bára Einarsdóttir sem fékk 128 atkvæði í 1. – 3. sæti. Hans Jónsson varð fjórði í prófkjörinu með 147 atkvæði í 1. – 4. sæti. Rúnar Gunnarsson fékk 156 atkvæði í 1. – 5. sæti, Skúli Björnsson fékk 186 atkvæði í 1. – 6. sæti og loks Gunnar Ómarsson með 200 atkvæði í 1. – 7. sæti.

Prófkjörið hófst 3. mars og var fyrstu 10 dagana opið aðeins fyrir félaga í Norðausturkjördæmi. Þar sem tilskilinn atkvæðafjöldi, 100, fékkst ekki fyrir þann tíma framlengdist prófkjörið um viku auk þess sem opnað var fyrir atkvæði Pírata af öllu landinu. Tæplega 200 atkvæði bættust við á þeim tíma.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar