Dró til baka stuðning við bókun um fiskeldi eftir fund heimastjórnar

Fulltrúi í heimastjórn Seyðisfjarðar segist hafa gert mistök með að samþykkja bókun á fundi hennar fyrir viku þar sem hvatt var til þess að umsókn um leyfi til fiskeldis í firðinum yrði sett í forgang hjá stofnunum. Formaður heimastjórnar segir tilganginn hafa verið að eyða óvissu til að einfalda vinnu starfshóps um framtíðaratvinnukosti á Seyðisfirði, ekki taka afstöðu með eða á móti eldi í firðinum.

Í bókuninni er farið þess á leit við sveitarstjórn að sveitarstjóra verði falið að óska eftir því við Matvælastofnun að afgreiðsla umsóknar um rekstrarleyfi fyrirhugaðs laxeldis í Seyðisfirði verði sett í forgang.

Nánar í fundargerðinni segir að með tillögunni sé ekki tekin afstaða til fiskeldis eða einnar atvinnugreinar umfram aðra, heldur aðeins stuðlað að því að eyða óvissu og tryggja markvissara starf samráðshóps um atvinnukosti á Seyðisfirði. Hópurinn þurfi að geta byggt á traustum og skýrum forsendum og því verði að eyða áralangri óvissu um eldið. Starfshópurinn var skipaður í kjölfar þess að Síldarvinnslan tilkynnti að bolfiskvinnslu verði hætt þar vorið 2024. Um þrjátíu störf eru við vinnsluna í dag.

Þrír fulltrúar eru í heimastjórninni, tveir Seyðfirðingar kjörnir beinni kosningu þar en síðan formaður úr sveitarstjórn. Allir fulltrúarnir samþykktu bókunina. Sólarhring síðar sendi einn þeirra, Jón Halldór Guðmundsson, frá sér innlegg í Facebook-hóp Seyðfirðinga þar sem hann dregur stuðning sinn til baka.

Ekki rétt að þrýsta á lögformlegt ferli


Hann segir að óháð fiskeldinu sé mikið verk framundan að fylla það skarð sem fiskvinnslan skilji eftir sig í atvinnustarfseminni. Ekki sé faglegt af sveitarfélaginu að skipta sér að máli sem sé í lögformlegu ferli. Þá sé hægt að líta svo á að bókunin sé ákall um eldi í fjörðinn sem geti haft vond áhrif á lífríki, samfélag og atvinnuhætti fyrir utan að vera andstætt vilja bæjarbúa.

Í samtali við Austurfrétt segir Jón Halldór að honum hafi snúist hugur eftir fundinn á þeim forsendum sem yfirlýsing hans byggist, að misráðið sé að bóka um lögbundið ferli. „Þessi bókun er óheppileg. Það er jákvætt að farið sé yfir atvinnumálin á faglegan hátt. Að þrýsta á eitthvað sem er í lögformlegu mati samrýmist því ekki. Þetta er heldur ekki lýðræðislegt í ljósi þess að 75% Seyðfirðinga hafa lýst sig mótfallna fiskeldinu. Þá höfum við höfum séð hvað er að gerast í fiskeldismálum og að verið er að herða reglurnar í kringum þess. Þess vegna verður að stíga varlega til jarðar,“ segir hann.

Stuðningurinn mistök


Í könnun sem gerð var fyrir Múlaþing í vetur lýstu 75% aðspurða á Seyðisfirði sig andvíga fiskeldinu. Jón Halldór segist hafa fengið nokkur viðbrögð við bókuninni eftir að fundargerðin birtist. „Fólk talaði við mig en ég kalla það ekki þrýsting,“ svarar hann aðspurður um hvort hann hafi sætt þrýstingi um að skipta um skoðun.

„Ég skýrði hvernig þessi bókun kom til. Margir voru slegnir að lesa hana þrátt fyrir þá varnagla sem fylgdu henni, fannst þarna verið að heima laxeldið. Það var alls ekki mín meining. Öðrum fannst hún meinlaus. Mér finnst hún það ekki. Þarna er ýtt á niðurstöður í lögformlegu ferli. Heimastjórn hefur forðast að taka beina afstöðu í fiskeldismálum því við viljum ekki gera okkur að deiluvettvangi. Ég er ekki í heimastjórn til að vera með eða á móti meirihluta sveitarstjórnar. Með þessu játa ég að hafa gert mistök. Maður er alltaf að læra eitthvað og verður að vera tilbúinn að játa mistök,“ segir Jón Halldór.

Bókunin verður til umræðu á fundi sveitarstjórnar í dag. Tæknilega séð hefur yfirlýsing Jóns um að honum hafi snúist hugur lítið að segja. Þá hefur heimastjórn ekki formlegt ákvörðunarvald heldur er ráðgefandi. „Að mér snúist hugur hefur ekkert að segja formlega um afgreiðslu málsins en það dregur væntanlega úr þunga bókunarinnar. Ég býst við að vakin verði athygli á þessu á fundinum í dag.“

Hann kveðst annars bjartsýnn á vinnuna í atvinnumálum Seyðfirðinga. „Það er ástæða til að huga að atvinnumálum á Seyðisfirði og víðar, ekki síst í ljósi lokun vinnslunnar. Ég tel það þar eigi ekki að horfa á einhvern einn þátt. Öllu atvinnutækifæri eru velkomin, sérstaklega þau sem eru umhverfisvæn og falla vel að samfélaginu hér. Áður en hópurinn var skipaður voru komnar fram nokkrar hugmyndir til hans.“

Nauðsynlegt fyrir vinnuna að eyða óvissunni


Björg Eyþórsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi, er formaður heimastjórnarinnar. Hún ítrekar að bókuninni hafi verið ætlað að eyða óvissu, ekki hlutast til um leyfisferlið. „Við erum að koma samráðshópnum af stað. Okkur vannst mikilvægt til að gera vinnu hans markvissari að greina hvaða möguleikar séu á borðinu. Ef fiskeldið kemur ekki til greina þá þarf ekki að leggja vinnu í að greina það heldur aðra kosti. Þess vegna finnst okkur rétt að eyða óvissunni.

Leyfisveitingaferlið er lögbundið og við vitum að við höfum ekkert um það að segja. Við erum ekki að biðja um flýtimeðferð, heldur að umsóknir á Seyðisfirði verði settar í forgang umfram aðrar umsóknir sem fyrir liggja til að svörin fáist.

Við erum ekki að taka afstöðu með eða á móti fiskeldinu. Það væri ábyrgðarhluti að útiloka eina atvinnugrein eða taka eina fram yfir aðra. Það er ekki okkar vilji né heldur að fara gegn vilja íbúanna,“ segir hún.

Um yfirlýsingu Jóns Halldórs um að draga stuðninginn til baka segir Björg að vald heimastjórnar sé á fundum og bókunin hafi verið niðurstaða síðasta fundar. Einstaklingar hafi hins vegar alltaf sínar skoðanir og frelsi til að skipta um þær.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.