„Dæmi um hvað einfaldleikinn getur verið sterkur“

Þjónustuhúsið á Vatnsskarði, sem Fljótsdalshérað og Borgarfjarðarhreppur standa að, hefur verið tilnefnt til Menningarverðlauna DV 2016 í flokknum arkitektúr. Hönnuður hússins er Eirik Rönning Andersen frá Zero Impact Strategies.



Árið 2013 stóðu sveitarfélögin Fljótsdalshérað og Borgarfjarðarhreppur í samstarfi við Arkitektafélag Íslands fyrir hugmyndasamkeppni um bætta aðstöðu fyrir ferðafólk í Stórurð og næsta nágrenni Dyrfjalla.

Dómnefndina skipuðu þau Aðalheiður Atladóttir, Laufey Agnarsdóttir og Þórarinn Malmquist. Í mati þeirra segir að ferlið hafi skilað einstaklega vel heppnaðri niðurstöðu og dæmi um hvað einfaldleikinn getur verið sterkur. Þar segir;

„Byggingin hefur fengið sterk karaktereinkenni sem tengjast formi Dyrfjalla en er á sama tíma mjög hógvær og einföld bygging sem þjónar hlutverki sínu í mikilli sátt við landslagið í kring. Byggingin er samsett úr tveimur aðskildum smáhýsum þar sem annað hýsir salerni en hitt er upplýsinga- og útsýnisrými. Á milli smáhýsanna myndast svo skarðið sem skírskotar í form Dyrfjalla. Lögð var mikil áhersla á að byggingin væri umhverfisvæn og þyrfti lítið viðhald og endurspeglast þetta í einföldu efnisvali. Útveggir eru úr forsteyptum einingum með svörtu basaltyfirborði frá Egilsstöðum og timburklæðningin í millirýminu er lerki frá Hallormsstaðarskógi.“

Í nóvember síðastliðinn hlaut verkefnið Dyrfjöll – Stórurð, gönguparadís, sem þjónustuhúsið er hluti af, Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu.

Hér má sjá umfjöllun um þau verkefni sem tilnefnd eru til Menningarverðlauna DV í arkitektúr. Á þessari síðu gefst lesendum jafnframt tækifæri til að taka þátt í kosningu um verkefnin.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar