Covid-smit í skipi í Mjóeyrarhöfn

Staðfest hefur verið að tíu af nítján manna áhöfn flutningaskipsins Taurus Confidence, sem lagðist að bryggju í Mjóeyrarhöfn í gær, eru með Covid-19 veiruna. Ekki er talin hætta á að smit dreifist út frá skipinu.

Í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands kemur fram að við komuna hafi skipstjórinn gert grein fyrir að sjö í áhöfninni væru veikir. Að fenginni lýsingu á einkennum og öðrum athugunum var ákveðið að taka sýni úr allri áhöfninni.

Sýnatökunni lauk í gærkvöldi. Í dag varð ljóst að tíu voru með veiruna.

Aðgerðastjórn almannavarnanefndar og umdæmislæknir sóttvarna á Austurlandi, í samvinnu við umboðsmann útgerðarinnar og skipstjórann, hafa gefið leiðbeiningar um sóttvarnaráðstafanir um borð.

Læknisfræðilegt eftirlit með skipverjunum verður unnið samkvæmt fyrirliggjandi vinnureglum þar um af Covid-deild Landspítala og HSA. Í tilkynningunni kemur fram að sýnataka og aðrar aðgerðir hafi gengið vel og aðgerðastjórnin telji ekki hættu á að smitið dreifi sér.

Hinir smituðu eru allir í einangrun um borð og aðrir í sóttkví. Þannig hefur verið frá komu skipsins til hafnar.

Taurus Confidence kom til Reyðarfjarðar upp úr klukkan fimm í gær eftir tveggja vikna siglingu frá Brasilíu en það kom þaðan með súrál fyrir álver Alcoa Fjarðaáls. Skipið er skráð á Marshall-eyjum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar