Björgunin við Papey: Fórum út á léttabát frá fiskeldinu

Ingi Ragnarsson formaður björgunarsveitarinnar Báru á Djúpavogi segir að þeir hafi farið á léttabát frá Fiskeldi Austfjarða út að fiskibátnum sem tók niðri við Papey. Þeirra eigin bátur var í viðgerð.

„Þegar við komum á staðinn var áhöfnin, fjórir menn, komin yfir í fiskibátinn Véstein sem var fyrsti bátur á staðinn,“ segir Ingi. „Þeir voru samt búnir að ná að blása sinn eigin gúmmíbjörgunarbát upp.“

Ingi segir að kallið hafi komið um níuleytið í gærkvöldi og nær 20 menn úr björgunarsveitinni hafi svarað því.

„Við fórum nú ekki allir á sjó en fyrstu þrír okkar fengu léttabát frá fiskeldinu og við vorum komnir á staðinn skömmu eftir að mennirnir fjórir voru komnir yfir í Véstein,“ segir Ingi. „Þetta gekk því allt eins og best verður á kosið.“

Ingi segir að annar bátur, Sigríður, frá fiskeldinu hafi svo dregið hinn laskaða bát til hafnar á Djúpavogi. Dælt var úr honum á leiðinni.

Komið var með bátinn til hafnar á Djúpavogi um miðnæturleytið. Síðan var fenginn kranabíll til að hífa hann upp á bryggjuna þar sem hann stendur núna.

Mynd: Ingi Ragnarsson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.