Bjarni Þór Haraldsson er Austfirðingur ársins 2023

Bjarni Þór Haraldsson á Egilsstöðum var kosinn Austfirðingur ársins af lesendum Austurfréttar. Bjarni Þór hefur skipulagt rokktónleika með ungu austfirsku tónlistarfólki og fleiri viðburði til að efla geðheilbrigðismál í fjórðungnum.

„Ég sver ég átti ekki von á þessu. Ég get viðurkennt að fyrsta hugsun mín var að ég ætti þetta ekki skilið. Það voru margir aðrir frábærir sem komu til greina auk þess sem það eru svo margir sem hafa gert þessa hugmynd að því sem hún er orðið, hljómsveitin og fleiri,“ segir Bjarni Þór. Hann varð hlutskarpastur í kosningunni að þessu sinni.

Hann hefur frá árinu 2017 verið að baki árlegum rokktónleikum sem haldnir hafa verið til styrktar geðheilbrigðismálum á Austurlandi þar sem ungir, austfirskir hljóðfæraleikarar mynda hljómsveitina. Tónleikarnir voru fyrst haldnir á Egilsstöðum en í fyrra var spilað bæði þar og í Neskaupstað auk þess sem haldið var á Græna hattinn á Akureyri.

„Það var mikil upplifun fyrir þátttakendur í bandinu að fara á Akureyri og gaf þeim mikið. Við höfum fjölgað tónleikunum því það er ákveðin synd að æfa upp svona stórt og gott prógramm og geta ekki leyft fleirum að njóta.“

Vildi koma hæfileikafólki á framfæri


Bjarni segist upphaflega hafa farið af stað með tónleikana til að gefa ungu fólki tækifæri á að koma fram. „Ég hafði verið með börn í tónskólanum og farið þar á tónfundi. Þar sá ég mikið af hæfileikaríkum einstaklingum sem komu hvergi annars staðar fram. Eins var mikið af hæfileikafólki hvert í sínu horni og mig langaði að búa til eitthvað til að leiða það saman. Ég vonaði að það myndaðist aftur svona bílskúrsmenning eins og í gamla daga, þar sem fólk kom saman til að djamma og búa til tónlist.

Hin hugsunin var að láta gott af sér leiða. Það skortir á margt í geðheilbrigðismálunum. Það deila fleiri þeirri skoðun með mér að þau séu í öðrum flokki en önnur heilbrigðismál. Ef einstaklingur kemur með verk í vinstri hönd og þyngsli fyrir brjósti þá er honum ekki sagt að bíða í allt að ár. Hann er strax tekinn inn og athugað hvort hann sé að fá hjartaáfall.

Einstaklingur sem kemur inn með verk í sálinni þarf að bíða svo mánuðum eða árum skiptir áður en nokkuð er farið að gera. Það er mjög hættulegt, eins og dæmin hafa sannað. Það er ekki ásættanlegt.

Ef þetta brölt, getur orðið einhver vitundarvakning, þá er það stór sigur.“

Málþing um geðheilbrigðismál


Meira hefur bæst við en bara tónleikarnir. Á síðasta ári stóð Bjarni og hans fólk fyrir málþingi um geðheilbrigðismál á Austurlandi ásamt Heilbrigðisstofnun Austurlands og sveitarfélögin. Hann segist finna fyrir því að „bröltið“ skili árangri.

„Mér finnst við klárlega hafa gárað vatnið og það orðið vitundarvakning. Ég finn að fólk sem ég er í samskiptum við er ánægt með þetta. Ég hef hitt foreldra sem eru þakklátir fyrir stuðninginn sem tónleikarnir hafa veitt, svo sem til að halda námskeið gegn kvíða eða í hugrænni atferlismeðferð, bókakaupum og fleiru.“

Áformað er að halda annað slíkt málþing á þessu ári. „Þetta tókst vel í fyrra. Við fengum fólk sem nýtir þjónustuna til að segja frá og það var mjög gott. Það er mikilvægt innlegg í faglega starfið.“
Efnisskrá tónleikanna til þessa hefur byggst á rokki. Fyrst var það Dio, síðan grunge-rokk, áttundi áratugurinn, rokk af níunda áratugnum og loks í fyrra íslensk tónlist þar sem popp slæddist með.

„Ég get kitlað fólk aðeins með því að næst er það níundi áratugurinn. Sumum finnst það flott en ég var unglingur á þessum tíma og fæ kjánahroll. En tískan fer í hringi og þessi tónlistarstefna hefur gengið í endurnýjun lífdaga.“

Bjarni hlýtur að launum að viðurkenningu frá Austurfrétt, árs áskrift að Austurglugganum og gjafabréf í mat og gistingu frá Gistihúsinu Egilsstöðum.

Austfirðingur ársins


Austurfrétt hefur valið Austfirðing ársins frá árinu 2012. Eftirtalin hafa áður verið valdir Austfirðingar ársins á Austurfrétt:

2022: Jóhann Valgeir Davíðsson
2021: Davíð Kristinsson
2020: Íbúar Seyðisfjarðar
2019: Jóhann B. Sveinbjörnsson
2018: Steinar Gunnarsson
2017: Ólafur Hr. Sigurðsson
2016: Þórunn Ólafsdóttir
2015: Tara Ösp Tjörvadóttir
2014: Tinna Rut Guðmundsdóttir
2013: Friðþór Harðarson og Sigurður Friðþórsson
2012: Árni Þorsteinsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar