Bíll brann við Egilsstaði

Bifreið, sem var að koma inn í Egilsstaði ofan af Fagradal á öðrum tímanum í nótt, er gjörónýt eftir að kviknaði í henni. Nokkuð var um útköll hjá björgunarsveitum í veðurofsanum í gærkvöldi.


Ekki er vitað hvers vegna kviknaði í bílnum en vera má að rokið hafi hjálpað til við að breiða út eldinn þannig að bíllinn varð alelda. Ökumaður var einn í bílnum og var kominn út úr honum þegar aðstoð barst.

Sjúkrabíll á leið yfir Oddsskarð fauk út af veginum klukkan níu í gærkvöldi og festist. Björgunarsveitin Brimrún frá Eskifirði fór á staðinn og aðstoðaði við að ná honum aftur upp á veg svo hann gæti haldið áfram ferð sinni til Egilsstaða.

Ferðalangar lentu í vandræðum þegar bíll þeirra bilaði á Jökuldalsheiði og rúða brotnaði í Menntaskólanum á Egilsstöðum.

Tré fauk í garði á Egilsstöðum og sumarbústaður færðist til á iðnaðarlóð. Bátur var við það að losna frá bryggju á Reyðarfirði.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar