Biðin eftir plötunni stóð í 12 ár

Reyðfirðingurinn Jóhanna Seljan heldur á laugardagskvöld útgáfutónleika sólóplötu sinnar sem kom út í byrjun ágúst. Platan hefur verið nokkurn tíma í smíðum því fyrsta lagið var tekið upp árið 2008.

„Ég byrjaði að semja lög um tvítugt. Fyrsta lagið sem ég samdi er jafnframt síðasta lagið á plötunni.

Lengst af stakk ég lögunum ofan í skúffu. Þegar ég byrjaði í blúsbandinu, sem ég er enn með í dag, árið 2016 sagði ég við sjálfa mig að ég hef herti mig ekki upp og tæki stefnuna á að gefa út plötu þá yrði það aldrei.

Ég ætlaði að gefa út plötu árið 2008 og tók þá upp fyrsta lagið. Það var hins vegar svo mikið mál og dýrt að koma út plötunni að ég ákvað að bíða aðeins með það. Sú bið varði í tólf ár,“ segir Jóhanna.

Góður hópur gerði drauminn að veruleika

Hún segir það hafa vafist lengi fyrir sér hvernig hún ætti að koma lögunum frá sér. „Ég spila ekki á hljóðfæri og les ekki nótur. Þess vegna var mikið mál fyrir mig að koma lögunum frá mér þannig að tónlistarmenn gætu tekið við þeim og spilað.

En síðan varð það ekkert mál þegar ég vann með yndislegu og þolinmóðu tónlistarfólki sem skildi það sem ég var að segja og var til í að vinna með mér í svona verkefni,“ bætir hún við.

Austfirskir tónlistarmenn eru fyrirferðamiklir í liði Jóhönnu. Garðar Eðvaldsson stjórnaði upptökum, tónjafnaði og hljóðblandaði. Fjarðadætur syngja bakraddir, Jón Hilmar Kárason leikur á gítar og Jón Hafliði Sigurjónsson á bassa. Þess utan trommar Birgir Baldursson og Kjartan Valdemarsson leikur á hljómborð. Platan var tekin upp í Stúdíó Síló á Stöðvarfirði á einni helgi.

Jóhanna segir erfitt að lýsa tónlistarstefnu plötunnar sem sé bræðingur úr ýmsum áttum, meðal annars blús, djassi og rokki. Á henni sé þó ákveðinn blær sem eigi grunn sinn í hvernig hún var unnin.

Platan kom formlega út 1. ágúst og segist Jóhanna hafa fengið afar jákvæð viðbrögð frá þeim sem hafi hlustað á hana. Þá er hún plata vikunnar á Rás 2 þessa vikuna. „Það sem Rás 2 gerir fyrir íslenska tónlistarmenn er aðdáunarvert og ég er afar þakklát fyrir að fá svona flotta kynningu og tækifæri til að koma plötunni í loftið,“ segir hún.

Útgáfutónleikar eins og útskrift

Á laugardagskvöld eru síðan útgáfutónleikar plötunnar í Egilsbúð í Neskaupstað. „Ég byrjaði seint að auglýsa þá. Tveggja metra reglan og fleira sem var í gildi gerði tónleikahald afskaplega erfitt, jafnvel óframkvæmanlegt. Nú ætla ég að kýla á tónleikana, það verður passað upp á metrann, ég mæti galvösk og tilbúin og vonast eftir að sjá sem flesta.“

Jóhanna er ekki óvön því að syngja fyrir Austfirðinga og fleiri í ýmsum hljómsveitum og ýmis tækifæri en það verður ný upplifun fyrir hana að flytja sína eigin tónlist. Hún hlakkar þó mikið til þess.

„Ég hef aldrei flutt þessi lög opinberlega, nema þetta eina sem ég söng þegar ég var 20 ára. Ég held að það verði ofboðslega gefandi að flytja lögin, með öllum sem spiluðu og rödduðu með mér, eftir alla þessa vinnu og árin sem fóru í að manna sig upp í að gefa út plötuna. Þetta er eins og að taka við prófskírteininu úr háskólanámi, maður er búinn að leggja hjartað og sálina í verkið. „

Tónleikarnir hefjast klukkan 20:30 á laugardagskvöld en húsið opnar klukkan 20:00.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.