Bið á lausn húsnæðisvanda lögreglunnar á Seyðisfirði

Nú stendur yfir frumathugun af hálfu Framkvæmdasýslu ríkisins á húsnæðisvanda lögreglunnar á Seyðisfirði og munu vera nokkrar vikur í að henni ljúki. Þetta kemur fram í svari Karls Péturs Jónssonar fjölmiðlafulltrúa Framkvæmdasýslunnar við spurningu Austurfréttar um málið.

Lögreglan á Seyðisifirði hefur verið á hrakhólumólum með húsnæði í um áratug eftir að lögreglustöð bæjarins var lokað og Vínbúðin fékk inni í húsnæðinu. Fyrir um tveimur árum varð á ný fastráðinn lögregluþjónn á Seyðisfirði en hann hefur haft aðstöðu í Ferjuhúsinu.

„Þetta er bara fimm fermetra pláss, eða kompa, í Ferjuhúsinu sem lögregluþjóninn hefur til afnota og hvergi nærri fullnægjandi,“ segir Rúnar Gunnarsson yfirhafnarvörður á Seyðisfirði. „Hann getur hvorki verið með viðtöl né yfirheyrslur í þessu plássi og alla fanga verður að flytja í Egilsstaði.“

Fyrr í mánuðinum kom Hannes Frímann Sigurðsson verkefnastjóri hjá Framkvæmdasýslunni til Seyðisfjarðar til að fara yfir húsnæðismál lögreglunnar þar.

Óskaniðurstaðan er nýbygging

Það var Rúnar Gunnarsson, ásamt, hafnarstjóra og fulltrúum lögreglu og tollsins, sem tóku á móti Hannesi og kynnti Rúnar honum stöðu mála af hálfu heimamanna.

„Okkar óska niðurstaða er nýbygging við Ferjuhúsið þar sem lögreglan fengi viðunandi aðstöðu fyrir sína starfsemi,“ segir Rúnar. „Það væri æskilegt að þessi húsnæðisvandi yrði leystur sem fyrst.“

Karl Pétur segir að frumathugunin miði að því að kanna ýmsa möguleika á því að koma upp viðunandi vinnuaðstöðu fyrir lögregluna á Seyðisfirði. Ekki sé mikið meira um málið að segja að svo stöddu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar