Auglýsa eftir rekstraraðila Miklagarðs: Verði opið menningarhús

Vopnafjarðarhreppur hefur auglýst eftir aðila til að sjá um rekstur félagsheimilisins Miklagarðs. Væntanlegum rekstraraðila er ætlað að standa fyrir fjölbreyttu félagslífi og er skylt að skrá starfsemi fyrirtækis síns í sveitarfélaginu.


Miklagarði er ætlað að verða félagsheimili og menningarhús Vopnfirðinga, þar sem allir aldurshópar eigi tækifæri til að sækja þá þjónustu sem þar verður í boði.

Í útboðslýsingu segir að rekstraraðila sé í samvinnu við sveitarfélagið ætlað að byggja upp fjölskylduvæna starfsemi. Til þess þurfi hann að gera hópum og einstaklingum kleift að notfæra sér húsið með leigu.

Ekki er gerð krafa um að veitingastarfsemi sé rekin í húsinu en ætlast er til að rekstraraðilinn þjónusti þá viðburði sem eru í húsinu, meðal annars með veitingum. Til dæmis á hann að skaffa „kaffi og einfalt meðlæti“ þegar hreppsnefnd fundar þar.

Ætlast er til að rekstraraðilinn bjóði upp á menningarviðburði og dansleiki, þar með talda unglingadansleiki. Hann skal viðhalda ákveðnum hefðum sem skapast hafa í skemmtana- og menningarlífi Vopnafjarðar, svo sem þorrablótum. Skemmtifélagið og þorrablótsnefnd hafa forgang að húsinu fyrir sína viðburði.

Í anddyri hússins er rekin upplýsingamiðstöð yfir sumarmánuðina og eiga snyrtingar og sturtuaðstaða í húsinu að vera opnar almenningi þann tíma. Þá á að bæta við þvottavél og þurrkara sem gestir geta nýtt sér gegn gjaldi. Rekstraraðili er ábyrgur fyrir umgengi um húsið og lóð þess sé snyrtileg og til fyrirmyndar.

Val á rekstraraðila veltur á þeim áætlunum um starf í húsinu sem hann setur fram. Samið er til 2020 með möguleika á tveggja ára framlengingu og er umsóknarfrestur til loka mánaðarins.

Mikligarður er byggður árið 1953 og er 770 fermetrar á stærð.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.