Átta milljónir til húsnæðisframkvæmda hjá Minjasafni Austurlands

Endurnýjun húsnæðis Minjasafns Austurlands var eitt 13 verkefna sem fengu öndvegisstyrk þegar úthlutað var úr Safnasjóði í síðustu viku. Alls fá austfirsk verkefni rúmar 16 milljónir úr sjóðnum.

Minjasafnið fær alls átta milljónir á næstu þremur árum, þrjár milljónir í ár og 2023 en tvær á því næsta til að standa straum af kostnaði sem fellur á safnið sjálft vegna framkvæmda við Safnahúsið á Egilstöðum.

Í frétt á vef safnsins kemur fram að það þurfi að flytja nær allan safnkostinn úr húsinu á meðan framkvæmdunum stendur. Þá nýtist styrkurinn einnig til að byggja upp aðstöðu safnsins í nýrri viðbyggingu og efna þannig faglegt starf þess á sviði varðveislu, rannsókna og miðlunar.

Minjasafnið á Bustarfelli í Vopnafirði er einnig meðal þeirra sem hljóta öndvegisstyrki en það hlýtur 1,7 milljónir samanlagt á þessu ári og næsta til skrásetningu sögu jarðar og ættar.

Bæði söfnin fá einnig verkefnastyrkir úr sjóðnum fyrir þetta ár. Minjasafnið fær 300.000 krónur til varðveislu á sumarhúsi Jóhannesar Kjarvals og 320.000 fyrir sýningu Francois Lelong, Hreindýradraugur III. Bustarfell fær hálfa milljón í Bustarfellsdaginn.

Tækniminjasafn Austurlands á Seyðisfirði fær alls þrjár milljónir króna, annars vegar 1,7 milljónir í fyrsta áfanga geymslu og tilfærslu eftir skriðuföllin í desember, hins vegar, 1,3 milljónir í annan hluta endurskoðun og stefnumótun safnsins.

Þá fær Sjóminjasafn Austurlands á Eskifirði 2,5 milljónir til að mynda og skrá safnmuni.

Menntamálaráðherra úthlutar styrkjum að fenginni umsögn safnaráðs. Alls var tilkynnt um ráðstöfun 236,4 milljóna króna að þessu sinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar