Ámælisvert að slaka á öryggiskröfum þegar skip eru seld

Rannsóknarnefnd samgönguslysa átelur harðlega að slakað sé á öryggiskröfum þótt skip séu að skipta um eigendur. Þetta er niðurstaða úr rannsókn nefndarinnar á slysi um borð um Barða NK, skipi Síldarvinnslunnar, í fyrrasumar.

Barði NK fór til nýrra eigenda í Rússlandi í júlí í fyrra. Mánuði fyrr slasaðist skipverji þegar 10 metra löng keðja slóst í hann.

Samkvæmt atvikalýsingu í nýlegri skýrslu nefndarinnar varð slysið þar sem skipið var á togveiðum á Halamiðum. Þegar trollið var komið í sjóinn ætlaði skipverjinn að taka öryggiskrókinn úr bakborðshleranum en meðan hann var að því slitnaði togvír þannig að keðja milli vírsins og hlerans slóst í öxl skipverjans. Við það féll skipverjinn niður á þilfarið og slasaðist. Mildi þykir að ekki fór verr, öryggishjálmur skipverjans fór af honum við fallið og slóst keðjan í þilfarið rétt við höfuð hans andartaki síðar.

Við rannsókn kom í ljós að togvírinn var slitinn og augað á vírnum illa farið en þar fór vírinn í sundur. Vírinn var settur í nýr átta mánuðum fyrr en búið var að uppfæra hann og splæsa einu sinni eftir það.

Nefndin telur mjög slæmt viðhald á togvírum og lélegt eftirlit með þeim orsök slysins. Haft er eftir skipstjóra að reglulega hafi verið skipt um togvíra en því hafi verið frestað á þessum tíma þar sem búið var að selja skipið. Sem fyrr segir átelur nefndin það harðlega að slakað sé á öryggiskröfum þótt eigendaskipti séu frágengin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar