Ákærður fyrir að skjóta hreindýr án leiðsögumanns

Lögreglustjórinn á Austurlandi hefur ákært karlmann á sjötugsaldri fyrir að hafa skotið hreindýr án þess að vera í fylgd með leiðsögumanni. Farið er fram á að maðurinn verði sviptur skotvopnaleyfi.


Maðurinn er kærður fyrir brot á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum og reglugerð um stjórn hreindýraveiðar þar sem segir að handhafi veiðileyfis megi ekki veiða hreindýr nema í fylgd leiðsögumanns sem hlotið hafi starfsleyfi Umhverfisstofnunar.

Honum er gefið að sök að hafa í lok júlí árið 2014 skotið hreindýrstarf án þess að vera í fylgd með leiðsögumanni innarlega í Bárðarstaðadal í Loðmundarfirði. Ákæra var gefin út í málinu í vor en það er rekið fyrir Héraðsdómi Austurlands.

Farið er fram á að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar auk þess sem hann verði sviptur skotvopna- og veiðileyfi.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar