Áætlar að skriðan sé 20-40 metrar á breidd

Erfitt er að meta umfang skriðanna tveggja sem féllu niður í byggð á Seyðisfirði í dag vegna myrkurs og vegur. Sú stærri féll á menningarmiðstöðina Skaftfell og teygir sig alla leið niður á hafnarsvæðið að sögn sjónarvottar.

„Þetta virðist ansi væn skriða úr Nautaklaufinni utanverðri. Það virðist fara nokkuð stórt stykki úr Botnabrúninni niður í Breiðablikslæk innan við Skaftfell og niður hann.

Mér sýnist hann meira og minna fullur. Síðan gengur aur á túnið ofan við Skaftfell. Vatn úr skriðunni hefur hlaupið lengra niður og nær niður á hafnarsvæði.

Það er erfitt að sjá hve breið skriðan er. Fljótt á litið sýnist mér hún vera 20-40 metrar á breidd í myrkrinu og bílljósunum,“ segir Ólafur Hr. Sigurðsson, íbúi á Seyðisfirði og fullrúi í heimastjórn.

Skriðurnar í dag eiga upptök sín í Botnabrúnum og segir Ólafur að ummerki hafi verið um minni skriður þar strax í morgun. „Ég var að horfa upp í fjallið hálftíma af svæðinu hálftíma áður en stóra skriðan kom. Það mátti sjá smá úrrennsli í brúnunum og ein lítil spýja hafði fallið þar í nótt svo það var greinilega los á jarðvegi.“

Hann segir að einnig hafi fallið spýjur niður að húsum við Botnahlíð og vatn komist inn í einhver þeirra, fyrst og fremst í kjallara.

Talsverð snjókoma var síðasta miðvikudag á Seyðisfirði en um kvöldið byrjaði að rigna og hefur vart stytt upp síðan. Við slíkar aðstæður eru skriðuföll algeng í Seyðisfirði.

„Þetta er búin að vera ofsaleg úrkoma og það er enn grenjandi rigning. Þegar það rignir í 5-6 daga samfleytt hér rennur yfirleitt einhvers staðar úr fjallinu. Í nótt var yfir 10 mm/klst í fjóra tíma og þá hleypur líka. Þetta er allt á þekktum svæðum.

Það sem bjargað hefur þó því sem bjargað verður er að það er kominn snjór niður í mitt fjall sem þýðir að það sem kemur er úr neðstu brekkunum. Núna snjóar niður undir Botnana. Það er ekki að falla neitt í lækina sem stíflar þá ofarlega. Þá gætu komið miklar gusur.“

Mynd: Ómar Bogason




Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar