Áætlar að skriðan sé 20-40 metrar á breidd

Erfitt er að meta umfang skriðanna tveggja sem féllu niður í byggð á Seyðisfirði í dag vegna myrkurs og vegur. Sú stærri féll á menningarmiðstöðina Skaftfell og teygir sig alla leið niður á hafnarsvæðið að sögn sjónarvottar.

„Þetta virðist ansi væn skriða úr Nautaklaufinni utanverðri. Það virðist fara nokkuð stórt stykki úr Botnabrúninni niður í Breiðablikslæk innan við Skaftfell og niður hann.

Mér sýnist hann meira og minna fullur. Síðan gengur aur á túnið ofan við Skaftfell. Vatn úr skriðunni hefur hlaupið lengra niður og nær niður á hafnarsvæði.

Það er erfitt að sjá hve breið skriðan er. Fljótt á litið sýnist mér hún vera 20-40 metrar á breidd í myrkrinu og bílljósunum,“ segir Ólafur Hr. Sigurðsson, íbúi á Seyðisfirði og fullrúi í heimastjórn.

Skriðurnar í dag eiga upptök sín í Botnabrúnum og segir Ólafur að ummerki hafi verið um minni skriður þar strax í morgun. „Ég var að horfa upp í fjallið hálftíma af svæðinu hálftíma áður en stóra skriðan kom. Það mátti sjá smá úrrennsli í brúnunum og ein lítil spýja hafði fallið þar í nótt svo það var greinilega los á jarðvegi.“

Hann segir að einnig hafi fallið spýjur niður að húsum við Botnahlíð og vatn komist inn í einhver þeirra, fyrst og fremst í kjallara.

Talsverð snjókoma var síðasta miðvikudag á Seyðisfirði en um kvöldið byrjaði að rigna og hefur vart stytt upp síðan. Við slíkar aðstæður eru skriðuföll algeng í Seyðisfirði.

„Þetta er búin að vera ofsaleg úrkoma og það er enn grenjandi rigning. Þegar það rignir í 5-6 daga samfleytt hér rennur yfirleitt einhvers staðar úr fjallinu. Í nótt var yfir 10 mm/klst í fjóra tíma og þá hleypur líka. Þetta er allt á þekktum svæðum.

Það sem bjargað hefur þó því sem bjargað verður er að það er kominn snjór niður í mitt fjall sem þýðir að það sem kemur er úr neðstu brekkunum. Núna snjóar niður undir Botnana. Það er ekki að falla neitt í lækina sem stíflar þá ofarlega. Þá gætu komið miklar gusur.“

Mynd: Ómar Bogason




Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.