72 ára og eldri fá bóluefni í næstu viku

Vonir standa til að hægt verði að bólusetja alla Austfirðinga yfir sjötugu við Covid-19 veirunni í næstu viku. Notast verður við AstraZeneca bóluefnið sem nýjar rannsóknir hafa sýnt að gefst vel í eldri aldurshópum.

Skipt var um gír í bólusetningum á landsvísu í gær þegar ákveðið var að hefja bólusetningu með AstraZeneca hjá fólki yfir sjötugu, en áður hafði verið stefnt að því að sá hópur fengi efni frá Pfizer/BioNTech.

Þegar AstraZeneca efnið var fyrst tekið í notkun lágu ekki fyrir rannsóknir á virkni þess hjá fólki yfir sjötugu. Þær hafa nú verið gerðar og þykir efnið gefa góða raun þar. Á upplýsingafundi almannavarna í dag sagði sóttvarnalæknir að stefna Íslands væri í takt við það sem nágrannaþjóðirnar væru að gera.

Mikilvægt að staðfesta tímann

Þetta gerir það að verkum að í næstu viku er stefnt að því að allir íbúar fæddir 1949 og fyrr á Fljótsdalshéraði, Borgarfirði, Norðfirði, Eskifirði, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði fái sinn fyrri skammt af bóluefni frá AstraZeneca. Seinni skammtur verður gefinn eftir um þrjá mánuði.

Einstaklingar í þeim aldurshópum sem fá bólusetningu í næstu viku eiga von á SMS-skilaboðum í dag og símhringingu á morgun eða mánudag frá Heilbrigðisstofnun Austurlands til að staðfesta tíma sinn. Í tilkynningu frá stofnuninni segir að mikilvægt sé að staðfesta mætingu þannig ekkert bóluefni fari til spillis.

Á Suðurfjörðum og Vopnafirði var bólusetning komin lengra. Þá munu þeir sem hafa hafið bólusetningu með efni Pfizer/BionTech fá seinni skammt sinn þaðan.

Í vikunni eftir páska er stefnt að því að ljúka bólusetningu 70 ára og eldri á Austurlandi með bóluefni AstraZeneca.

Ekki er í boði fyrir fólk að velja milli bóluefna. Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HSA, segir að til þessa hafi afar fáir hafnað bólusetningu með efni AstraZeneca.

AstraZeneca kemur vel út

Hlé var gert á notkun efnis AstraZeneca hérlendis fyrir tveimur vikum eftir að athugasemdir bárust frá Norðurlöndunum um að einstaklingar hefðu fengið blóðtappa eftir hafa verið sprautaðir með efninu. Nánari athugun hefur sýnt að sú áhætta virðist bundin við konur á barnsburðaraldri. Í Bretlandi eru skráð 5 slík tilfelli, þar af eitt sem leiddi til andláts, eftir 11 milljónir skammta. Ekki hefur verið sýnt fram á beint orsakasamhengi milli bóluefnisins og blóðtappanna en ítarlega er fylgst með öllum aukaverkunum Covid-19 bóluefnanna.

Í vikunni var kynnt ný bandarísk rannsókn með 32.000 þátttakendum. Enginn þeirra fékk blóðtappa. Mikill ávinningur reyndist af notkun bóluefnisins. Í rannsókninni reyndist virkni bóluefnisins 79% í því að koma í veg fyrir smit og 100% í að koma í veg fyrir alvarleg veikindi. Þá virðist það veita góða vörn gegn breska afbrigði veirunnar sem breiðist nú út hérlendis.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.