58 milljónum úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Austurlands

58 milljónum var í dag úthlutað til 51 verkefnis úr Uppbyggingarsjóði Austurlands. Verkefnunum er ætlað að efla atvinnuþróun og menningu í landshlutanum. Hallormsstaðaskóli fékk hæsta styrkinn til uppbyggingar tilraunaeldhúss ætlað frumkvöðlum í matvælagerð.

Verkefni á vegum matvælaþróunar eru ofarlega efst á listanum. Auk Hallormsstaðaskóla, sem fékk fjórar milljónir fá Sauðagull ehf. og Beljandi brugghús þrjár milljónir hvort. Sauðagull ætlar að þróa sauðamjólkurís en Beljandi að setja upp rými þar sem hægt verður að geyma bjór á eikartunnum.

Listahátíðin List í ljósi á Seyðisfirði fær einnig þrjár milljónir. Þá fær Þór Vigfússon 2,8 milljónir til að opna safn fyrir alþjóðlega samtíma- og nútímalist á Djúpavogi.

Alls bárust 118 umsóknir sem er svipað og verið hefur en að jafnaði berast árlega 110-130 umsóknir til sjóðsins. Áætlaður heildarkostnaður verkefna var um 540 m.kr. en sótt var um styrki fyrir 186 m.kr, þar af 96 m.kr. til menningarmála og 91 m.kr. til nýsköpunar og atvinnuþróunar.

Til úthlutunar að þessu sinni voru 57.800.000 kr. og skiptist fjármagnið þannig að 27 verkefni á sviði menningar hlutu styrki sem námu 27 milljónum og 20 styrkir til atvinnuþróunar upp á alls 24,8 milljónir. Að auki voru veittar 6 milljónir til stofn- og rekstarstyrkja á sviði menningar.

Í tilkynningu frá Austurbrú um úthlutunina segir að sérstaklega sé litið til þess að verkefni tengist skýrt áherslum nýrrar Sóknaráætlunar Austurlands sem snúa að málum á sviði menningar og atvinnuþróunar auk tengingar við umhverfismál.

Áherslurnar felast í stuðningi við menningarverkefni sem styrkja atvinnustarfsemi á sviði lista og menningar, verkefni sem styðja við menningarstarf barna og ungmenna og verkefni sem draga fram og efla áhugaverða þætti í menningararfleifð.

Áherslur sóknaráætlunar snúa einnig að því að styðja við og efla nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi, verkefni sem fela í sér skref að aukinni sjálfbærni og fullvinnslu á Austurlandi þá sérstaklega úr skógarafurðum og á sviði matvælaframleiðslu sem og verkefni sem ríma við hugmyndafræði verkefnisins Áfangastaðarins Austurlands.

Nánari upplýsingar um verkefnin er að finna í sérstökum bæklingi sem aðgengilegur er hér. Hér að neðan er listi yfir öll verkefni sem fengu styrk og þá upphæð sem þau hlutu.

Umsækjandi Verkefni Upphæð
Hallormsstaðaskóli Tilraunaeldhús, uppbygging og þjónusta 4.000.000
Elís Pétur Elísson Beljandi Bewery barrel room 3.000.000
Sauðagull ehf. Sauðamjólkurís 3.000.000
List í ljósi List í ljósi 3.000.000
Þór Vigfússon Safn fyrir alþjóðlega samtíma- og nútímalist á Djúpavogi 2.800.000
Sinfóníuhljómsveit Austurlands Kvikmyndatónleikar 2.500.000
Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði Sköpunarmiðstöðin 2.400.000
LungA Listasmiðjur, listviðburðir, LungA LAb 2.300.000
Skaftfell Sýningadagskrá Skaftfells 2021 2.000.000
Þorbjörg Ásbjörnsdóttir Geitagott 2.000.000
Kári Borgar Skurðarhnífur fyrir harðfiskverkum 1.700.000
Blábjörg Undirbúningur og þróun á heilsuvörum úr jurtum í heimabyggð 1.500.000
Fljótsdalshérað Þjóðleikur 2021 1.200.000
Monika Frycova Stýrishús - Brú: KIOSK 1.200.000
Sauðagull Markaðssetning 1.100.000
Alona Perepelytsia Dansskóli Austurlands 1.000.000
Geir Sigurpáll Hlöðversson Strengir - Coney Island Babies og SinfóAust 1.000.000
Gunnarsstofnun Ævintýri og matarmenning á Upphéraði 1.000.000
Hlín Pétursdóttir Behrens Austuróp 1.000.000
Maciej Pietrunko Nordic Paradise 1.000.000
Mjóeyri Austurland Freeride Festival 1.000.000
Óbyggðasetur Náttúruskólinn 1.000.000
Verkmenntaskóli Austurlands Tæknidagur fjölskyldunnar 2021 1.000.000
Kammerkór Egilsstaðakirkju Schubert að vori 1.000.000
Fjarðabyggð Listasmiðjur og listasýningar 800.000
Fljótsdalshérað Hnikun - sumarsýning 1 800.000
Sinfóníuhljómsveit Austurlands Sinfóníuhljómsveit Austurlands 800.000
Tækniminjasafn Austurlands Skólaviðburðir - tilraunaverkefni 800.000
Tónlistarmiðstöð Austurlands Upptakturinn á Austurlandi 2021 800.000
Torvald Gjerde Tónlistarstundir 2021 800.000
Bláa kirkjan Bláa kirkjan 750.000
Hringleikur - sirkuslistafélag Sirkuslistasýningar og -smiðjur 700.000
Konrad Korabiewski Krafla - hljómplata 700.000
Þór Tulinius Opnunarleikrit ætlað börnu í nýju leikhúsi í Sláturhúsinu 700.000
Sköpunarmiðstöðin Sköpunarmiðstöðin í 10 ár 650.000
Austurlands Food Coop Chef's Garden 500.000
Félag ljóðaunnenda á Austurlandi Útgáfa ljóðabóka árið 2021 500.000
Fljótsdalshérað Vor / Wiosna 2021 500.000
Gunnarsstofnun Rithöfundalest 500.000
List í ljósi Heima x List í ljósi 500.000
Margrét Magna Árnadóttir Uppbygging garðyrkjustöðvar 500.000
Minjasafn Austurlands Kjarvalshvammur - 4. áfangi 500.000
Philippe Clause GOSIÐ 500.000
Skaftfell Listfræðsluverkefni 500.000
Þorpið - skapandi samfélag Stefnumót við skógarsamfélag III 500.000
Gunnarsstofnun Flakkað um fornar slóðir 500.000
Krossdal Létt byssuskefti úr íslensku hráefni 400.000
Hafsalt Kryddsalt - vöruþróun 400.000
Vopnafjarðarhreppur Fjölþjóðleg listahátíð barna 300.000
Jónsver Saumavél fyrir saumaverkefni 200.000
Kvikmyndasýningafélag Austurlands Bílabíó 200.000

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar