Enn bætir í vindinn: Lausar þakplötur á álverinu

Björgunarsveitir voru kallaðar út um klukkan sex í morgun til að aðstoða við hefta fok á þakplötum af álverinu í Reyðarfirði.


Þær upplýsingar fengust hjá Fjarðaáli að plötur hefðu verið að fjúka að skrifstofubyggingu álversins. Fokið hefði ekki verið alvarlegt en aðstoð björgunarsveita mikil metin.

Á Eskifirði var björgunarsveit kölluð út til að huga að bátum sem voru að losna í höfninni og lausra þakplatna.

Bætt hefur í vindinn eftir því sem liðið hefur á nóttina og mesta vindstyrknum er spáð á milli klukkan átta og tíu.

Snarpasta hviðan sem mælst hefur var á Vatnsskarði eystra um klukkan sex í morgun, 71 m/s. Meðalvindhraði þar hefur vart farið undir 30 m/s síðan klukkan níu í gærkvöldi.

Á Seyðisfirði er mikið vatn á götum bæjarins og munu heimamenn vart hafa séð annað eins. Mesta úrkoman á landinu frá miðnætti er þar, 36 mm og 9 stiga hiti.

Rafmagnið fór af bænum í tíu mínútur eftir klukkan fjögur í morgun þegar lína leysti út. Líkt og á fleiri stöðum á Austurlandi hafa bæjarbúar átt erfitt með svefn vegna hávaðans í rokinu.

Úr aðgerðastjórn á Egilsstöðum. Mynd: GG

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar