Framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar sendir ráðamönnum tóninn vegna viðskiptaþvingana gegn Rússum

GI i turninumGunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupsstað sendir utanríkisráðherra og formanni utanríkismálanefndar tóninn í pistli sem birtist á heimasíðu SVN í dag. Hann segir enga efnislega umræðu hafa farið fram um þátttöku íslenskra stjórnvalda í að framlengja viðskiptabann gegn Rússum vegna málefna Úkraínu, þrátt fyrir að hagsmunir þjóðarbúsins séu lagðir að veði með þeirri ákvörðun.

Allt stefnir í að Rússar setji innflutningsbann á vörur frá Íslandi á næstu dögum, en Ísland hefur hingað til sloppið við viðskiptabann af hálfu Rússa, rétt eins og nokkur önnur Evrópulönd sem standa utan ESB.

Gunnþór segist hafa átt fundi bæði með ráðherra og formanni utanríkismálanefndar eftir að í ljós kom að Íslands studdi upphaflegar þvingunaraðgerðir gegn Rússum, þar sem þeim var gerð grein fyrir mögulegum afleiðingum þess að Rússar settu innflutningsbann á Íslendinga. „Samt sér Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, enga ástæðu til að staldra við þótt gríðarlegir hagsmunir séu í húfi fyrir íslenskt efnahagslíf,“ segir Gunnþór.

Hlutverk stjórnvalda á að sögn Gunnþórs að vera það að skapa umgjörð um starfsskilyrði fyrirtækja og styðja við þann farveg sem alþjóðleg viðskipti fara um. „Sé raunverulegur vilji til að aðstoða íslensk fyrirtæki og gæta að hagsmunum þjóðarinnar getur ráðherra lýst yfir hlutleysi stjórnvalda og reynt að vinda ofan af stuðningi Íslands í aðgerðum gegn Rússum. Á þann hátt er sjálfstæði Íslendinga í utanríkismálum undirstrikað,“ segir í pistlinum.

Viðskiptaþvinganir bitni fyrst og fremst á almennum borgurum

Gunnþór segir viðskiptaþvinganir skila takmörkuðum árangri. „Viðskiptaþvinganir hafa takmörkuð áhrif og bitna helst á þeim sem síst skyldi, það er almennum borgurum viðkomandi ríkja. Hlutverk utanríkisráðuneytisins er að framfylgja utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar eftir diplómatískum leiðum en ekki að beita þjóðir viðskiptaþvingunum án umræðu. Það á að rækta viðskiptin við Rússa á þessum erfiðu tímum og er full ástæða að viðhalda áratuga góðum viðskiptasamböndum við Rússa.“

Rússlandsmarkaður er mikilvægur fyrir Íslendinga að sögn Gunnþórs og segir hann afleiðingar viðskiptaþvingana okkar gagnvart Rússum að öllum líkindum steypast yfir okkur á næstu dögum í formi innflutningsbanns á einn af okkur mikilvægustu mörkuðum fyrir frystan uppsjávarfisk; loðnu-, síldar- og makrílafurðir. Auk þess hafi markaður fyrir bolfiskafurðir Íslendinga verið vaxandi í Rússlandi.

„Viðskiptaaðilar okkar þar í landi hafa verið duglegir að upplýsa okkur um fréttaflutning af þessu máli sl. viku og hefur verið alveg skýrt í þeirra huga hvert málið stefnir. Samt virðast þessar fréttir koma utanríkisráðherra á óvart í Morgunblaðinu og hann segir óljóst hvað Medvedev forsætisráðherra sé að segja. Hér eru miklir hagsmunir í húfi og ráðherra lætur málið koma sér í opna skjöldu,“ segir Gunnþór.

„Síldarvinnslan í Neskaupstað hefur flutt út síldarafurðir til Rússlands í meira en hálfa öld og hefur sá markaður ávallt skipt fyrirtækið og starfsfólk þess miklu máli. Vonum við að svo verði áfram um ókomna tíð og að samskipti okkar og viðskiptavina okkar í Rússlandi haldi áfram að styrkjast.“

Mynd: Vefsíða Síldarvinnslunnar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.