Hagtak átti lægsta boðið í stækkun Vopnafjarðarhafnar

IMG 1089Hafnarnefnd Vopnafjarðarhrepps ákvað á fundi sínum í gærkvöldi að taka tilboði Hagtaks hf. í Hafnarfirði í dýpkun og breikkun innsiglingar Vopnafjarðarhafnar. Stækka þarf höfnina til að ný skip HB Granda geti athafnað sig svo vel sé.

Hagtak bauð 157 milljónir eða 68,1% af kostnaðaráætlun sem var upp á rúmar 230 milljónir. Eitt annað tilboð barst, frá Björgun ehf. upp á 286,8 milljónir, vel yfir kostnaðaráætlun.

Til stendur að ráðast í framkvæmdirnar á milli loðnu- og makrílvertíðar á næsta ári og allt verði tilbúið í júní 2016. Byrjað verður á móts við Helenuflúð og haldið inn fyrir Friðarsker.

Breikka þarf innsiglinguna og stækka svokallað snúningsrými til að taka á móti stærri skipum HB Granda. Hið fyrsta þeirra, Venus NS, kom inn til Vopnafjarðar í lok maí.

Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri, segir að skipið geti athafnað sig við núverandi aðstæður en stækkunin auki öryggi sjófarenda.

Breytingarnar hafi verið unnar í samráði við sjófarendur á svæðinu og muni skapa ný tækifæri fyrir höfnina. „Þegar búið er að rýmka allt svæðið skapast möguleikar fyrir stærri skip að koma inn, sem er hentugt ef það verða frekari umsvif í siglingum á svæðinu."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar