Gríðarleg úrkoma á Austurlandi síðastliðinn sólarhring: Skriðuhætta í Seyðisfirði - Myndir

seydis omar4Veðurstofan hefur sent frá sér viðvörun þar sem lýst er yfir óvissuástandi vegna skriðuhættu á Austfjörðum, í kjölfar mikilla rigninga í fjórðungnum síðasta sólarhring. Mest var úrkoman í nótt, en þá rigndi gríðarlega og mældist úrkoma í Seyðisfirði og á Fáskrúðsfirði meiri en 10 millimetrar á klukkustund þegar mest rigndi í nótt. Veginum í sunnanverðum Seyðisfirði var lokað í morgun vegna skriðuhættu.

Þær upplýsingar fengust hjá lögreglunni á Austurlandi að fylgst væri með stöðunni. „Við metum stöðuna með lögreglustjóra og ofanflóðanefndinni. Varðandi Seyðisfjörð, þá var veginum lokað í morgun og verið er að taka stöðuna á því hvernig framhaldið verður með það í þessum töluðu orðum, hvort þurfi að framlengja lokunina eða hvað,“ sagði lögreglumaður sem Austurfrétt ræddi við.

128,5 millimetra sólarhringsúrkoma

Sólarhringsúrkoma á veðurathugunarstöðinni að Hánefsstöðum í sunnanverðum Seyðisfirði mældist 128,5 millimetrar frá kl. 9 í gær og þar til klukkan 9 í morgun, samkvæmt vef Veðurstofunnar.

Jón Sigurðsson bóndi á Hánefsstöðum segir úrkomuna hafa verið mikla. „Það er búið að rigna mikið og rignir enn, en ég veit nú ekki til þess að það hafi skriðið mikið. Það eru tvær ár hérna nálægt mér og sú austari er óvenjumikil en hún er hrein. Hinum megin er Sörlastaðaá og hún er einnig ansi mikil og var sérstaklega lituð fyrst í morgun. Það var orðið mjög mikið í henni,“ sagði Jón í samtali við Austurfrétt.

„Þetta er óvenjulegt, það er stór eyri hérna við sjóinn og hún er nánast undirlögð af vatni. Ég fór inn í kaupstað í morgun og á leið minni þangað flæddi víða ansi mikið yfir veginn, en þó var ekki farið að grafa úr honum. Ég stoppaði í tvo tíma í bænum og það var búið að loka veginum þegar ég kom til baka. Það er ekki annað hægt því þarna hafa gjarnan komið miklar skriður. Ekki nokkurt vit í öðru en að loka ströndinni því að þetta er ekkert spaug,“ sagði Jón.

Myndir: Ómar Bogason á Seyðisfirði tók meðfylgjandi myndir síðdegis í dag.

seydisfjordur omar1seydis omar2seydis omar3seydis omar5seydis omar6






Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.