Efnahagsmál í öndvegi: Ársfundur Sjálfbærniverkefnisins 2015

sjalfbaerni ljosm HSÁrsfundur Sjálfbærniverkefnisins verður haldinn í Skólamiðstöðinni á Fáskrúðsfirði, miðvikudaginn 6. maí milli klukkan 14:00 – 18:00. Sérstakt þema fundarins er efnahagsvísar Sjálfbærniverkefnisins og efnahagsmál.

Auk umfjöllunar um áhugaverðar niðurstöður vöktunar í Sjálfbærniverkefninu á síðasta ári verða flutt áhugaverð erindi um efnahagsmál.

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri atvinnu- og þróunarmála hjá Fjarðabyggð, fer yfir þróun- og helstu efnahagsbreytur samfélagsins og veltir fyrir sér mælikvörðum á árangri. Guðlaugur Sæbjörnsson, fjármálastjóri Fljótsdalshéraðs, fjallar um efnahagsmælikvarða sveitarfélaga og Jón Skafti Gestsson, hagfræðingur hjá Verkfræðistofu Jóhanns Indriðasonar um nýja stefnu fyrir sjálfbærnivísa.

„Erindið mitt mun fjalla um þá hugmynd að mæla sjálfbærni með því að meta auðstofna (e. capital), en ekki flæði afurða eða gæða," segir Jón Skafti. „Í allra einföldustu mynd má segja að á meðan auðstofninn minnkar ekki er nýting hans sjálfbær. Til dæmis má ímynda sér að verið sé að mæla fiskstofn í stað þess að mæla afla. Á meðan fiskstofninn minnkar ekki, þá getum við talað um sjálfbærar veiðar. Til þess að hægt sé að meta slíka auðstofna þarf að taka upp nýja hagvísa og ég mun ræða um nokkra mögulega hagvísa sem gætu komið til greina," segir Jón Skafti.

Töluvert mun fara fyrir hópvinnu á fundinum og þar verður unnið með viðfangsefni sem tengjast efnahagsmálum.

Sjálfbærniverkefnið hefur verið starfrækt að frumkvæði Alcoa og Landsvirkjunar frá árinu 2004 í þeim tilgangi að fylgjast með áhrifum virkjunar og álversins á Reyðarfirði á samfélag, umhverfi og efnahag á Austurlandi.

Ársfundir þess eru opnir öllum og ástæða til hvetja áhugasama til að mæta og fræðast um framvindu og niðurstöður. Gunnar Jónsson, bæjarritari í Fjarðabyggð, verður fundarstjóri.

Ljósmyndina tók Hilmar Sigurbjörnsson á fundinum í fyrra.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.