AFL: Fyrsti maí er ekki hátíðisdagur þar sem farnar eru skrúðgöngur

hjordis thora afl 1mai15Hin svokallaða yfirstétt hefur vakið stéttarvitund fólks á ný með því að stuðla að misskiptingu lífsgæða. Niðurstaðan er alvarlegustu vinnudeilur sem sést hafa árum saman. Þótt talað sé um þjóðarsátt sé unnið í hina áttina.

Þetta sagði Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs Starfsgreinafélags í 1. maí ávarpi sínu í ár en fulltrúar AFLs ávörpuðu félaga á samkomum víða um fjórðunginn á föstudag.

„Fyrsti maí er ekki hátíðisdagur –og göngur þar sem þær eru farnar eru ekki skrúðgöngur. Menn blása ekki í lúðra eða berja bumbur af gleði og hamingju. Þetta er dagur sem við höfum tekið frá til að sýna samstöðu – til að þétta raðirnar og stappa stálinu hvert í annað," sagði hún.

Íspinnum stungið að verkafólki meðan milljarðar fara í arð

Hjördís kom inn á að dagurinn hefði að einhverju misst merkingu fyrir stóran hluta þjóðarinnar í seinni tíð en valdhafar og hin svokallaða yfirstéttin hafi síðustu vakið stéttarvitundin upp aftur.

„Við erum vöknuð upp við veruleika um samfélag sem er á kolrangri leið. Samfélag sem er leið misskiptingar og aukinnar stéttskiptingar. Samfélags þar sem þeir ríku verða sífellt ríkari og þeir fátæku sífellt fátækari.

Samfélag þar sem yfirstéttin er orðin svo veruleikafirrt að þeim finnst hæfilegt að stinga íspinnum að fiskvinnslufólki á meðan milljarðar eru greiddir út í arð.

Þar sem fjármálaráðherra fabúlerar um að kannski sé of mikill jöfnuður og þar sem heilbrigðiskerfið gengur á hálfum snúningi vegna verkfalla og menn náðu viðtali við fjármálaráðherra á níundu holunni á golfvellinum í Flórída.

Þetta er staðan í dag. Hálft landið í verkföllum. Svo tala menn um þjóðarsátt. Það þarf ímyndunarafl til þess. Hér er engin sátt."

Vilja réttlæti en ekki skjöl með kaupmætti

Hún sagði fjölda verkfallsboðana sýna að mælirinn væri fullur. Það finnist á félagsmönnum AFLs.

„Þeir vilja réttlæti en ekki excel skjöl með kaupmætti. Venjulegt launafólk vill geta framfært sér og sínum og komið þaki yfir höfuðið.

Og þegar venjulegu fólki sem öllu jafna er seinþreytt til vandræða er neitað um réttlátan skerf af verðmætunum á meðan fámennur hópur auðmanna virðast ganga sjálfala í auðlindir og arðinn af þeim – þá verður það reitt.

Stjórnmálamenn tala um „þjóðarsátt" en gera allt til að efna til ósættis. Stjórnarformenn fyrirtækjanna tala um óábyrgar kröfur launafólks en ganga sjálfir í arð fyrirtækjanna eins og það sé sparibaukurinn þeirra. Þetta er órétturinn sem fólk er reitt út af."

Sjálfsagt þyki að bera laun stjórnenda við það sem gerist á Norðurlöndunum en ekki laun verkafólks. Þá sé einnig langt í land með önnur lífsgæði. Baráttan snúist um jöfnuð í samfélaginu, í kjörum, þjónustu, velferð og tækifærum.

„Hér á landi eru dagvinnulaun verkafólks allt að 30% lægri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Þetta sýnir þróun í átt að auknum ójöfnuði sem nauðsynlegt er að stöðva."

Kórinn breytist ekki þótt skipt sé um forsöngvara

Á næstunni komi í ljós hvort samstaðan sé nógu sterk til að fylgja þessum kröfum eftir. Harðra aðgerða virðist þörf til að fá athygli. Ekki gangi upp að launafólk eitt axli ábyrgðina af stöðugleika þjóðarskútunnar.

„Við síðustu kjarasamninga buðum við upp á „þjóðarsátt". Við buðum upp á „ábyrga" kjarasamninga eins og það er kallað þegar kauphækkanir til láglaunafólks eru litlar og reynt er að treysta á sígandi lukku frekar en kraftmikla kippi í launum.

En það tók enginn undir og á stundum virðist eins og stjórnvöld og fyrirtækin séu beinlínis að ögra okkur – veifa framan í okkur íspinnum á meðan þeir skófla góðgætinu til sín.

Við þekkjum kórinn sem tekur á móti okkur – allt frá Seðlabanka og niður í einstaka sjoppueigendur. Samfélagið fer hreinlega á hliðina ef verkafólk fær einhverja kauphækkun.

Við höfum heyrt þennan söng áður og hann breytist ekkert. Textinn er sá sami þó svo að skipt sé um forsöngvara."

Hún sagðist aldrei hafa skynjað aðra eins reiði meðal félagsmanna eða jafn mikinn vilja til að fara í aðgerðir til að knýja á um úrbætur þann tíma sem hún hefði haft afskipti af málefnum verkafólks.

„Í þessari lotu tölum við með samstilltu átaki en ef yfirstéttin hlustar ekki - þá tölum við með hnefunum í næstu lotu."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.