Skólahaldi hætt á Hallormsstað frá og með næsta skólaári

hallormsstadarskoli mai13Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkti á fundi sínum í gær að hætta skólahaldi á Hallormsstað. Unnið verður að nýjum samningi um samstarf við Fljótsdalshrepp um samstarf í skólamálum.

Í bókun bæjarstjórnar er vísað til þess að börnum í skólahverfinu hafi fækkað stöðugt undanfarin ár og sum þeirra sæki skóla annað. Nemendur í vetur hafi aðeins verið tíu talsins.

„Þar sem ekki eru vísbendingar um breytingar á þessari þróun er það mat þeirra sem að skólanum standa, þ.e. sveitarfélaganna Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps, að ekki séu lengur forsendur fyrir að skólahaldi í Hallormsstaðaskóla verði haldið þar áfram og er lagt til að því verði hætt frá og með næsta skólaári."

Í framhaldinu verður skipaður starfshópur sem vinna á drög að nýjum samningi milli sveitarfélaganna um samstarf í grunn-, leik- og tónlistarskólum. Í honum sitja oddviti Fljótdalshrepps og fulltrúi hreppsins, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og fulltrúi.

Fræðslufulltrúi og starfsmaður eignasviðs Fljótsdalshéraðs starfa með hópnum. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili af sér drögum að samningi eigi síðar en 1. mars.

Þá þurfa sveitarstjórnirnar að taka afstöðu til þess hvernig fara skuli með þær eignir sem notaðar hafa verið undir skólastarf á Hallormsstað síðustu ár.

Bæjarstjórn fólk fræðslunefnd að fjalla um frágang við lok skólahalds á Hallormsstað í samráði við sveitarstjórn Fljótsdalshrepps.

Hallormsstaðarskóli hefur starfað frá árinu 1967.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar