Stór norsk fyrirtæki fylgjast með þróuninni í austfirsku fiskeldi

fiskiseidi djup mai14Stærstu norsku fiskeldisfyrirtækin eru sögð fylgjast náið með gangi mála í fiskeldi á Austfjörðum. Forsvarsmenn austfirskra fiskeldisfyrirtækja segja rúm fyrir umtalsverðar vöxt í greininni hérlendis.

Í Noregi er að verða búið að fullnýta þau svæði sem hæf eru talin til fiskeldis. Þetta þýðir að norsku fyrirtækin eru farin að horfa í kringum sig.

„Ég hugsa að Ísland geti rúmað 100.000 tonn, jafnvel 150.000 tonn," segir Jónatan Þórðarson, yfirlíffræðingur hjá Fiskeldi Austfjarða sem selur vörur sínar undir merkinu Ice Fish Farm í samtali við fréttavefinn Undercurrent News.

„Það er búið að gefa út leyfi fyrir 25.000 tonnum en það keppast allir við að fá leyfi fyrir meiru. Það munu ekki líða nema nokkrir mánuðir, í mesta lagi tvö ár, áður en stórt norskt fyrirtæki verður búið að fjárfesta hér."

Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður fyrirtækisins, staðfestir að áhugi Norðmanna hafi aukist í haust.

„Stærðin skiptir þessi fyrirtæki máli. Þau stærstu eru að leita að fjárfestingatækifærum og við erum í góðri stöðu eins og er. Við erum með stærstu raunhæfu áætlunina um stækkun."

Fiskeldi Austfjarða er með stærsta eldisleyfið hérlendis í dag upp á 11 þúsund tonn en stefna á stækkun í 25.000 og hafa sett stefnuna á 30.000 tonn.

Fiskeldi við Ísland þykir að mörgu leyti hagkvæmt. Jarðhitinn er notaður til að rækta seiði ódýrt, svæðin eru sjúkdómalaus og siglingin til Austfjarða er aðeins degi lengri en til Færeyja þannig að hægt er að samnýta flutningsleiðir.

Aðeins tekur 3-4 daga að koma vöru á markaði í St. Pétursborg í Rússlandi en hlutdeild íslensks fisks á mörkuðum þar hefur vaxið verulega eftir að stjórnvöld þar settu innflutningsbann á flest önnur ríki Evrópu.

Fiskiseiði flutt í eldið í Berufirði. Mynd: Magnús Kristjánsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.