Óhætt að neyta matjurta af gossvæðinu en betra að skola fyrst

eldgos flug 0066 webMeiri hætta er af innöndun mengunarefna frá eldgosinu í Holuhrauni heldur en neyslu matjurta í nágrenni við gosið. Betra er þó að skola jurtirnar fyrir neyslu.

Mengunin er aðallega tilkomin út af brennisteinsdíoxíði sem borist hefur víða um Austurland.

Í tilkynningu sem Matvælastofnun sendi frá sér í morgun er bent á að brennisteinsblöndur (súlfít) séu notuð sem aukefni í matvælaframleiðslu, meðal annars til að rotverja vín og önnur matvæli og til að viðhalda rauðum lit humars.

Súlfítið myndast þegar brennisteinsdíoxíðið kemst í snertingu við vatn eða raka.

Súlfít á yfirborði matjurta skolast af með vatni og lækkar styrkur þeirra mikið eftir rigningar. Neysla matjurta á áhrifasvæði eldgossins er ekki hættuleg fólki í því magni sem hér um ræðir og eru áhrif innöndunar brennisteinsdíoxíðs mun meiri.

Hins vegar eru súlfít þekktur ofnæmisvaldur og geta matjurtir af svæðinu þar af leiðandi verið varasamar fólki með óþol fyrir súlfítum í matvælum.

Matvælastofnun hvetur því fólk sem fyrr til að skola matjurtir og ber vel með vatni fyrir neyslu til að fjarlægja ryk og gosefni sem gætu hugsanlega verið til staðar s.s. súlfít, flúor og önnur snefilefni.

Hvað varðar dýr á beit þá telur MAST þeim stafa mun meiri hætta af innöndun brennisteinsdíoxíðs frá eldgosinu en af því litla magni sem sest á gróður.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar