Slæmar aðstæður í Akrafellinu fyrst í morgun: Búið að þétta í vélarrýminu

akrafell strand 06092014 0126 webKafarar náðu síðdegis að þétta vélarrými Akrafells, sem strandaði við Vattarnes í nótt. Ef vel gengur að dæla úr skipinu getur verið að reynt verði að ná því á flot um miðnætti. Aðstæður voru slæmar þegar fyrstu björgunarsveitarmennirnir komu um borð í morgun.

„Aðstæður voru slæmar þegar við komum. Það flæddi mikill sjór inn í vélarrúmið," segir Ólafur Atli Sigurðsson, formaður björgunarsveitarinnar Geisla á Fáskrúðsfirði.

Útkallið kom um klukkan fimm í morgun og var Ólafur Atli meðal fyrstu björgunarsveitarmannanna sem komu um borð í skipið. Hann segir áhöfnina hafa verið „í losti" en verið að græja sig til brottfarar.

Sjö úr áhöfninni voru fluttir í togarann Aðalstein Jónsson en sex urðu eftir. Um tíu björgunarsveitarmenn hafa að staðaldri verið um borð í dag við að dæla úr skipinu auk tveggja suðumanna frá Launafli og kafara frá Landhelgisgæslunni.

Ólafur Atli kom í land síðdegis og sagði í samtali við Austurfrétt að björgunaraðgerðir um borð í skipinu hefðu gengið „þokkalega." Þær hefðu snúist um að „halda sjó" og fá ekki meiri sjó í skipið.

Kafarar náðu á fimmta tímanum í dag að þétta gatið á vélarrúmi skipsins þannig að sjórinn flæðir ekki lengur þangað inn. Reynt er að dæla úr skipinu og ber það nú árangur. Gera á tilraun til að losa það af strandstað í kvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar