180 manns bólusettir í dag

180 Austfirðingar verða í dag bólusettir gegn Covid-19 veirunni með bóluefni frá Pfizer/BioNTech.

Einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma á aldrinum 65-70 ára verða bólusettir á Fljótsdalshéraði. Þá verður jafnframt byrjað að bólusetja 18-64 ára með undirliggjandi sjúkdóma. Ekki verða frekari bólusetningar í fjórðungnum þessa vikuna.

Fleiri verða bólusettir í næstu viku. Þegar er ljóst að 240 skammtar berast sem duga til að klára 65-70 ára með undirliggjandi sjúkdóma á Austurlandi og halda áfram með yngri aldurshópinn auk þess sem byrjað verður að bólusetja fólk á aldrinum 60-70 ára með AstraZeneca.

Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, segir bólusetningarnar á svæðinu almennt ganga vel og þeir sem mæta í þær leggi sitt af mörkum til að láta allt ganga smurt á bólusetningarstað.

Fyrirkomulagi boðunar í bólusetningu hefur verið breytt. Ekki er lengur hringt í alla heldur send SMS-skilaboð og þeir sem ekki ætla að þiggja bólusetningu beðnir um að láta vita á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Þangað má einnig senda fyrirspurnir um bólusetningar. Að auki er hringt í þá sem ekki eru með skráð farsímanúmer í kerfi HSA.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar