Ferðamenn virða ekki lokunarslár: Stórhríð spáð í kvöld

brimrun4 wbÞrjár björgunarsveitir voru í gærkvöldi í tvo og hálfan tíma að koma sjúklingi frá Seyðisfirði til Norðfjarðar og björgunarsveitin Jökull bjargaði þrettán bílum af Háreksstaðaleið. Færð spillist fljótt við þær aðstæður sem eru á austfirskum fjallvegum en eins eru brögð að því að ferðalangar virði ekki lokanir á vegum.

„Það voru að minnsta kosti tveir bílar í gær sem fóru framhjá slánni eftir að björgunarsveitarbíllinn var lagður á heiðna og lentu síðan í vandræðum," segir Guðjón Már Jónsson í svæðisstjórn björgunarsveita á Austurlandi.

Ferðalöngum var um miðjan dag í gær bjargað úr fimm bílum á Fjarðarheiði. Í gærkvöldi komu síðan þrjár björgunarsveitir, Ísólfur á Seyðisfirði, Brimrún á Eskifirði og Gerpir í Neskaupstað að því að flytja sjúkling frá Seyðisfirði til Norðfjarðar. Plógur frá Vegagerðinni fór einnig upp heiðina á móti björgunarsveitinni en bílar sem skildir höfðu verið eftir töfðu ferð hans.

„Ferðin gekk samkvæmt áætlun og menn voru tvo og hálfan tíma á leiðinni. Það má segja að þrjár björgunarsveitir með ellefu manns hafi tekið þátt í aðgerðinni auk þess sem Vegagerðin veitti okkur mjög góða þjónustu," segir Guðjón.

Menn frá Vegagerðinni og björgunarsveitinni Jökli stóðu einnig í ströngu á Háreksstaðaleið þar sem þrettán bílum var hjálpað. „Það gekk vel því þeir voru ekki langt uppi á heiðinni."

Guðjón segir tvennt valda því að svona jafn margir sitji fastir og raun ber vitni. Annars vegar að skjótt skipist veður í lofti og vegir geti orðið ófærir á skömmum tíma. Hins vegar að menn fari af stað án þess að hugsa út í hvað þeir séu að fara og virði jafnvel ekki lokanir, eins og áður kom fram.

„Ástandið á fjallvegum er þannig að erfitt er að halda þeim opnum. Það er stutt frá því að ástandið fer að versna þar til það er orðið vonlaust."

Spáð er stórhríð á Austurlandi í kvöld með stormi í kvöld og nótt en slyddu eða bleytusnjó á láglendi. Lokað er á Fjöllum, Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði og Oddsskarði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar