Veldur sá er á heldur

Leiðari Austurgluggans 25. september 2009:

 

Samband sveitarfélaga á Austurlandi, SSA, heldur aðalfund sinn í dag og á morgun á Seyðisfirði. Þyngst  áhersla verður að þessu sinni lögð á sóknaráætlun fyrir Austurland. Á laugardagsmorgun verða  fyrirlestrar undir kjörorðinu Austurland í sókn, og fjalla þeir meðal annars um ferða, menningar- og þekkingmál.

austurglugginn.jpg

Þá mun starfshópur SSA skila af sér skýrslu um framtíðarsamstarf sveitarfélaga í SSA. Ef hún verður samþykkt liggur fyrir að töluvert miklar breytingar eru framundan í innri málefnum samtakanna.

  

Sveitarfélög víða um land hanga nú fjárhagslega á bláþræði og fara austfirsk sveitarfélög ekki varhluta af þeim erfiðleikum. Sveitarstjórnir leggja nótt við dag í úrræði til að verja grunnþjónustu, en alls staðar þarf að spara og þar með að klípa af grunnþjónustu einnig. Við skulum ekki fara í grafgötur um að þegar til dæmis þarf að skera niður flöt 5% í skólum, sem þegar hafa sparað allt sem hægt er fyrr á árinu og ekkert er eftir nema að segja ræstitækninum upp, kemur það niður á skólastarfinu. Rýrara skólastarf skilar verri eftirtekju. Það er ekki vænlegt til sóknar. Þetta á við um alla þætti grunnþjónustunnar.

  

Þetta er vont við að eiga og við getum ekkert gert nema bitið á jaxlinn og bölvað í hljóði uns styttir upp aftur. Það gerir það alltaf á endanum, ef menn eru nógu og seigir. En allt ber að sama brunni; Nú er runninn upp sá tími sem við, íbúar þessa fjórðungs, þurfum að standa saman sem einn maður. Framtíð Austurlands er undir því komin. Við þurfum öll að leggja okkar af mörkum til samfélagsins, hvort sem er í þolinmæði gagnvart tímabundnum samdrætti, eða í tilleggi til menningarlífs í víðum skilningi, nýsköpunar og almennu hugrekki og stolti af því sem við getum áorkað með samtakamætti okkar. Nú er tíminn til að hætta að hugsa eftir afmörkuðum línum sveitarfélaganna og skilja til hlítar að það sem er vel gert og gott á einum stað er okkur öllum til framdráttar. Ég tek undir þau orð Péturs Bjarnasonar, framkvæmdastjóra Vísindagarðsins ehf., sem segir í viðtali annars staðar í blaðinu að fólk sé að átta sig á að það þurfi að gera meira heima fyrir. Menn sæki ekkert til hinna miðstýrðu yfirvalda nema vera með eitthvað til að bera á borð sjálfir og fá það inn í samstarf sem mótast á heimaslóð. Allir landshlutar séu að vakna upp við að baráttan við að halda velli á afmörkuðum landsvæðum felist í að vinna ötullega að því heima fyrir og samstilla kraftana þar. Það sé lykillinn að árangursríkri framtíð.

  

Fram til sóknar!

 Steinunn Ásmundsdóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.